Samkaup
Samkaup

Fréttir

Fjórir buðu í endurbyggingu stálþils í Sandgerðishöfn
Þriðjudagur 24. apríl 2018 kl. 07:00

Fjórir buðu í endurbyggingu stálþils í Sandgerðishöfn

Fjórir aðilar buðu í endurbyggingu stálþils á Suðurgarði Sandgerðishafnar en tilboð voru opnuð þann 10. apríl sl. Lárus Einarsson sf. í Kópavogi bauð lægst í verkið eða tæpar 106 milljónir króna. Það eru 84,7% af kostnaðaráætlun sem hljóðaði upp á tæpar 125 milljónir króna. Lárus Einarsson skilaði einnig inn frávikstilboði.
 
Aðrir sem buðu í verkið voru Ísar ehf. með tilboð upp á rúmar 129 milljónir, Ístak hf með tilboð upp á rúmar 143 milljónir og Hagtak hf. með tilboð uppá 162,5 milljónir króna.
 
Helstu verkþættir eru rif á núverandi þekju, 1.350 m2, og kantbita, 138 m. Sprengja þilskurð fyrir 46 stálþilsplötur, um 58 m. Rekstur á 116 stk. tvöföldum stálþilsplötum, frágangur á stagbitum og stögum. Jarðvinna, fylling aftan stálþils. Steypa 146 m langan kantbita með pollum, kanttré, stigum og þybbum. Verkinu skal lokið eigi síðar en 1. október 2018.