HS Orka
HS Orka

Fréttir

Fjörtíu hælisleitendur eru komnir á Ásbrú
Föstudagur 21. júlí 2017 kl. 14:01

Fjörtíu hælisleitendur eru komnir á Ásbrú

- Flestir koma frá Vestur-Balkanríkjunum og Austur-Evrópu

Íbúar í Reykjanesbæ hafa orðið varir við fjölgun hælisleitenda í sveitarfélaginu. Nýlega tók Útlendingastofnun á leigu húsnæði á Ásbrú fyrir hælisleitendur. Nú eru komnir um 40 umsækjendur um alþjóðlega vernd á vegum Útlendingastofnunar í húsnæðið. Það er hægt að koma fyrir 70 til 80 umsækjendum í þessa aðstöðu en það verður ekki gert nema brýn þörf sé á, að sögn Þorsteins Gunnarssonar hjá Útlendingastofnun.

Samið hefur verið um leigu á húsnæðinu til 12 mánaða. Flestir íbúanna á Ásbrú eru einhleypir karlmenn frá Vestur-Balkanríkjunum og Austur-Evrópu. Flestir eru frá löndum eins og Albaníu, Georgíu og Írak. Í húsnæðinu er 24 tíma öryggisgæsla en að öðru leyti er eftirlit með umsækjendum um alþjóðlega vernd það sama og er með almennum borgurum.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Útlendingastofnun var áður með fjölskyldur í þessu sama húsnæði til bráðabirgða og þá var ekki öryggisgæsla á staðnum. Fjölskyldurnar sem þarna voru eru nú annað hvort farnar af landi brott eða hafa verið fluttar í önnur úrræði. Þar sem að stofnunin sér fram á fjölgun umsækjenda er nauðsynlegt að tryggja aukið húsnæði fyrir haustið og var það húsnæði sem um ræðir talið hentugt. Stofnunin hefur að auki bætt við öryggisgæslu á staðinn.

„Líkt og allir umsækjendur um alþjóðlega vernd sem þess óska er þeim tryggt húsnæði, fæði og heilbrigðisþjónusta. Þjónustuteymi Útlendingastofnunar annast alla þjónustu og kemur reglulega í öll úrræði sem stofnunin rekur,“ segir Þorsteinn.

Markmið stofnunarinnar er að hraða vinnslu svokallaðra forgangsmála eins og unnt er og þegar um er að ræða örugg upprunaríki að málsmeðferð þar verði að jafnaði á bilinu 5 til 10 dagar. Unnið er að því að ná þeim markmiðum.

130 einstaklingar sóttu um alþjóðlega vernd á Íslandi í júní. Heildarfjöldi umsókna á fyrstu sex mánuðum ársins er 500 talsins en það eru um 80% fleiri umsóknir en bárust á fyrri helmingi síðasta árs (275). Fjölgunin samanborið við árið 2016, bendir því enn til þess að umsóknir um alþjóðlega vernd á árinu geti orðið allt að 2000 talsins, jafnvel fleiri.