Foreldrar áttu ánægjulegan eftirmiðdag

Málþingið var vel sótt og vakti stuttmyndin Brot eftir kvikmyndakonuna Helenu Stefánsdóttir sérstaka hrifningu. Gaman er að geta þess að Helena á ættir að rekja til Suðurnesja þar sem hún hóf sína grunnskólagöngu. Erindi hennar vakti foreldra til umhugsunar ekki síður en mynd hennar.
Guðbjörn Herbert Gunnarsson sem sá um barnagæsluna ásamt körfuboltastelpum úr 10. flokki í Keflavík sagði að börnin hefðu unað sér vel á meðan foreldrar námu það sem fram fór. Stúlkurnar nutu þess að gæta barnanna og leggja sitt af mörkum. Getum við öll verið stolt af unglingunum okkar.
Foreldrar á Suðurnesjum sýndu það eins og oft áður að þeir eru meðvitaðir um ábyrgðina sem fylgir uppeldishlutverkinu og að þeir þurfa að leita leiða til að styðja sig og styrkja. Liður í því er að blanda geði við aðra foreldra sér til gagns og gamans. Ellert Eiríksson var málþingsstjóri og skilaði því hlutverki af stakri prýði. Aðstaða og starfsfólk Fjölbrautaskóla Suðurnesja hjálpaði til að skapa hlýtt og afslappað andrúmsloft. Eru þeim sem stóðu að þinginu færðar þakkir fyrir framtakið.
Helga Margrét Guðmundsdóttir