Framkvæmt fyrir 18 milljarða í Reykjanesbæ

Þar voru kynntar væntanlegar og yfirstandandi framkvæmdir Reykjanesbæjar, Reykjaneshafnar og Fasteignar ehf. auk þess sem aðrir aðilar gerðu grein fyrir því sem er á döfinni hjá þeim.
Hitaveita Suðurnesja mun framkvæma fyrir um 7.5 milljarða, mest við Reykjanesvirkjun. Þá mun Fasteign framkvæma fyrir um 1600 milljónir og Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir um 1300 milljónir. Útgjöld Reykjanesbæjar í framkvæmdir á árinu munu nema um 330 milljónum.
Sérstaka athygli vekur framtak einkaaðila en verktakafyrirtæki munu leggjast út í framkvæmdir fyrir um 6.8 milljarða sem er mikil aukning frá fyrri árum.
Allir framsögumenn voru sammála um að engin ástæða væri til svartsýni á meðan svo mikil uppbygging væri á svæðinu og hvatti Halldór Ragnarsson, framkvæmdastjóri Húsaness, til þess að allir legðu sitt af mörkum til að skapa svæðinu jákvæða ímynd.
VF-mynd/Þorgils Árni Sigfússon kynnir framkvæmdir ársins á Ránni í gær