Fréttir

Framtíð Festis óljós
Laugardagur 23. janúar 2010 kl. 15:00

Framtíð Festis óljós


Enn hefur engin ákvörðun hefur verið tekin um framtíðarhlutverk Festis í Grindavík en um langt skeið hefur engin starfsemi verið í hinu fornfræga félagsheimili. Ýmsar hugmyndir hafa verið uppi um framtíðarnýtingu hússins, s.s. að byggja við það hótel og breyta því í miðbæjarkjarna en þær hugmyndir hafa ekki náð fram að ganga þó þær hafi litið vel út á teikniborðinu á sínum tíma.
„Það er ýmislegt í umræðunni, t.d. að nýta þetta undir tónlistarskóla og skrifstofurými fyrir stjórnsýslu bæjarins,  þó þannig að hægt sé að halda salnum. Menn virðast leggja talsverða áherslu á það. En það liggur ekki fyrir nein niðurstaða í þessu og ekkert sérstakt á teikniborðinu,“ sagði Ólafur Örn Ólafsson, bæjarstjóri í Grindavík þegar hann var inntur eftir því hvort eitthvað sérstakt væri efst á óskalista Grindvíkinga varðandi framtíðarnýtingu Festis.

Það var fyrir um tveimur árum sem kliðurinn í sölum Festis þagnaði og síðastliðið sumar var allt rifið innan úr húsinu. Um vorið hafði það látið verulega á sjá og þótti lítil reisn yfir þessu fornfræga húsi sem einu sinni var miðpunkturinn í samkomuhaldi bæjarbúa. Þá var tekið til þess ráðs að mála það hvítt og þannig hefur það staðið síðan, þögult og bíðandi eftir nýju hlutverki.