SSS
SSS

Fréttir

Framtíð Paddy's í algjörri óvissu
Staðurinn hefur verið leiðandi í tónlist á svæðinu og stigu Of Monsters And Men krakkarnir og fleiri þar sín fyrstu skref á sviði.
Föstudagur 28. nóvember 2014 kl. 16:57

Framtíð Paddy's í algjörri óvissu

Húsið hugsanlega fært í burtu

Allt útlit er fyrir að skemmtistaðnum Paddy's við Hafnargötu 38 verði lokað til frambúðar. Jafnvel fari svo að húsið verði fært eða jafnað við jörðu. Húsið er í eigu Reykjnesbæjar en bæjaryfirvöld eiga eftir að ákveða hvað gera skuli við húsnæðið sem hefur verið öldurhús síðustu rúma tvo áratugina. Guðbrandur Einarsson bæjarfulltrúi og oddviti Beinnar leiðar segir að hann vilji persónulega sjá húsið fara. Keflvíkingarnir Björgvin Ívar Baldursson og Ragnar Aron Ragnarsson hafa lýst yfir áhuga á því að koma með fjármagn inn í reksturinn og byggja staðinn frekar upp.

Ragnar segir að þeir félagar  hafi hugsað sér að efla starfsemi á staðnum en bæjaryfirvöld í Reykjanesbæ hafi ekki gefið skýr svör hvað varðar framtíð hússins. „Við höfum ekki fengið skýr svör frá bæjaryfirvöldum en erindið var ekki tekið fyrir á síðasta fundi bæjarstjórnar í gær (fimmtudag) eins og við bjuggumst við. Okkur hefur fundist að þegar við leitum eftir svörum, þá bendi menn hver á annan, en þó höfum við fengið bæði jákvæð og neikvæð viðbrögð frá bænum,“ segir Ragnar. Hann telur að Paddy’s sé ekki bara nafnið og starfsfólkið, heldur líka húsið og andrúmsloftið. „Sama hvort við tökum við rekstrinum eða einhver annar, þá væri mikil eftirsjá af staðnum að okkar mati og mikil blóðtaka fyrir samfélagið.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Paddys vann Súluna, menningarverðlaun Reykjanesbæjar árið 2010, fyrir að vera leiðandi í tónlistarlífi á svæðinu, en þar hafa margir þekktir tónlistarmenn stigið sín fyrstu skref. Nægir þar að nefna strákana í Hjálmum, Valdimar og þau Brynjar og Nönnu í Of Monsters And Men. „Viljum við efla tónlistarmenningu þar enn frekar og áður en þessi óvissa skapaðist vorum við búnir að fá mjög jákvæð viðbrögð frá nokkrum af stærri hljómsveitum Íslands uml að troða upp í desember.“

Okkar Nasa

Ragnar er á því að húsið hafi fest sig í sessi sem menningarhús og sé auk þess fallegt og eigi sér mikla sögu. „Að okkar mati er þetta eitt fallegasta hús Hafnargötunar og sögufrægt þar að auki. Með smá viðhaldi mætti gera það enn fallegra, en bærinn hefur ekki verið að sinna viðhaldi hússins undanfarin ár. Ég held að það sé óhætt að segja að þetta húsnæði sé fyrir okkur í Reykjanesbæ eins og Nasa í Reykjavík eða Græni hatturinn á Akureyri.“ Þeir félagar sjá fyrir sér að fjárfesta og efla atvinnu- og menningarlíf í bænum. „Við erum með fleiri verkefni í pípunum þar sem við sjáum viðsktipatækifæri víða í heimabænum okkar og við viljum leggja okkar af mörkum til að efla atvinnulíf í Reykjanesbæ.“

Passar ekki í skipulag

Guðbrandur Einarsson oddviti Beinnar Leiðar segir að hugmyndir hafi verið á lofti um að loka staðnum en fyrrum rekstraraðilar hafi ekki verið að standa við sínar skuldbindingar. „Líka á þeim grundvelli að þetta hús er fyrir í skipulagi þar sem það stendur út á götunni. Við hefðum viljað fjarlægja húsið eða færa það innar. Ég persónulega hefði viljað fjarlægja það,“ segir Guðbrandur. Húsið sem er frá árinu 1893 er friðað að einhverju leyti en líklega eru heimildir fyrir því að færa það að sögn Guðbrands. Endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin í málinu en reiknað er með því málið verði tekið fyrir hjá bæjarráði næsta fimmtudag.

Hvað varðar tónlistarmenningu sem þrifist hefur í húsinu og menningarverðlaunin þá segir Guðbrandur að það sé ekki húsnæðinu fyrir að þakka. „Það var ekki húsið sem slíkt sem fékk þau verðlaun, heldur starfsemin sem var í húsinu á þeim tíma. Þannig starfsemi getur verið hvar sem er.“

Varðandi það að efla Hafnargötuna þá segir Guðbrandur að hún sé vissulega hjarta bæjarins, „Hafnargatan er hjarta bæjarsins, en hvort að skemmtistaður er 100 eða 200 metrum ofar eða neðan á götunni á ekki að skipta sköpum í mínum huga. Þó ég hafi fulla samúð með því að fólk hafi verið að flytja þarna tónlist þá er það bara í eðli skemmtistaða að þeir séu í tísku og falla síðan úr tísku, Paddy’s hefur um árabil verið í tísku en var það ekki á árum áður, þetta getur breyst á einni nóttu.“

Hugsanlega annarskonar rekstur í húsinu

Guðbrandur segir að bærinn geti hugsað sér að nýta húsnæðið undir annarskonar rekstur. „Reksturinn eins og hann hefur verið í þessu húsi fram til þessa, er ekki að ganga. Þetta hefur verið verulegur fjárhagslegur skaði fyrir sveitafélagið og menn þurfa að endurskoða það með einhverjum hætti. Samingurinn er að renna út um áramótin og þá þarf að ákveða hvað taki við. Það eru mörg sjónarmið í þessu máli. Það er jafnvel hægt að nýta húsið undir aðra starfsemni. Við verðum að fá svigrúm til þess að ákveða hvernig á að nýta húsið,“ segir Guðbrandur að lokum.