Sjálfstæðisflokkurinn
Sjálfstæðisflokkurinn

Fréttir

Friðrik kemst aftur heim
Friðrik er vongóður um að geta farið aftur heim á Lyngmóann á næstu vikum
Þriðjudagur 7. júní 2016 kl. 13:42

Friðrik kemst aftur heim

- Ráðið í fleiri stöðugildi á sambýli við Lyngmóa

„Þetta eru mjög góðar fréttir,“ segir Friðrik Guðmundsson, sem beðið hefur á Landspítalanum í tvo mánuði eftir að geta snúið aftur heim til sín. Hann sér nú fram á að biðin verði brátt á enda. Friðrik er með sjaldgæfan erfðasjúkdóm og hefur undanfarin ár búið á sambýli við Lyngmóa í Reykjanesbæ, ásamt bróður sínum og einum öðrum íbúa. Friðrik fékk hjartastopp 27. mars síðastliðinn og var þá fluttur á Landspítalann. Hann mun hér eftir þurfa að notast við öndunarvél en fleiri starfsmenn þarf að ráða á sambýlið til umönnunar Friðriks nú en áður vegna tilkomu hennar. Fjallað var um málið á vef DV í síðustu viku og kom þar fram að málið hafi snúist um þau óljósu mörk sem geti verið á milli heilbrigðis- og félagsþjónustu. Hið fyrrnefnda er á forræði ríkis en félagsþjónusta á forræði sveitarfélaga. Bæjarráð Reykjanesbæjar samþykkti svo á fundi sínum 2. júní síðastliðinn að ráða í fleiri stöðugildi á sambýlinu.

Fjallað var um málið á vef DV, í Fréttablaðinu og á Vísi í síðustu viku og telur Friðrik að það hafi komið hreyfingu á gang þess. „Ásmundur Friðriksson þingmaður talaði mínu máli hjá Reykjanesbæ og hjálpaði til við að fá þetta í gegn,“ segir Friðrik sem hlakkar til að snúa aftur heim. Hann vonast til að það verði síðar í sumar. Bæjarráð samþykkti fjárveitingu upp á 16,5 milljónir og gerir ráð fyrir að fjármagn komi frá Jöfnunarsjóði í samræmi við frumvarp sem liggur fyrir Alþingi.

SSS
SSS

Tillaga til þingsályktunar um sólarhringsmeðferð í öndunarvél á heimili sjúklinga liggur fyrir Alþingi og meðal flutningsmanna hennar eru Suðurnesjamennirnir Oddný Harðardóttir og Páll Valur Björnsson. Í tillögunni kemur fram að það sé réttlætismál að íslenskir sjúklingar sem þurfi og kjósi langtímameðferð í öndunarvél eigi kost á henni. Þar segir jafnframt að málefnum sjúklinga sem þurfa langtímameðferð í öndunarvél hafi ekki verið fylgt nægilega hratt og vel eftir svo lífgæði sjúklinga verði eins góð og mögulegt er. Hér á landi eru tíu til fimmtán einstaklingar sem þurfa á öndunarvél að halda allan sólarhringinn til að geta lifað.