Froða sett í gosbrunninn á Vatnsnesvegi
Nýi gosbrunnurinn á Vatsnesstorgi í Reykjanesbæ fylltist af froðu um kvöldmatarleytið í kvöld. Hann var vígður formlega fyrr í dag þannig að segja má að grínararnir hafi ekki verið lengi að láta til skarar skríða.
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja hreinsaði froðuna loks burtu, en brunnurinn er samsettur af 12 stútum sem mynda tveggja metra radíus og tvö ljós lýsa hvern stút upp. Þannig myndar hann 12 gosstróka hver um það bil 1.6m – 2m hár.
OSN Lagnir ehf hafa séð um innkaup og uppsetningu á þessum brunni ásamt tæknilegri útfærslu. Brunnurinn er fengin frá OASE GmbH í Þýskalandi, en þeir eru meðal fremstu framleiðenda á gosbrunnum og búnaði þeim tengdum að því er kemur fram á vef Reykjanesbæjar.
Þar segir aukinheldur: Brunninum var valinn staður á Vatnsnesi með tilvísun í tjörn sem þar var að finna áður fyrr og notuð var fyrir íshús. Í fyrri tíð var erfitt að komast að neysluvatni á Suðurnesjum sem oft var mengað og ávallt salt. Í dag er þessu öfugt farið en í ljós hefur komið að mikla auðlind vatns er að finna á Reykjanesi. Það má því segja að brunnurinn sé tákn um breytta tíma og fagni vatninu á fallegan hátt.
Strax eru þó farnar að heyrast efasemdaraddir um gosbrunninn þar sem lögreglumenn óttast að þar sé börnum hætta búin þar sem þau geti slasað sig á sprautubúnaðinum á botni laugarinnar.
Á meðan laugin i miðju torgsins var tóm gerðu börn sér oft að leik að hjóla þar eða renna sér á hjólabrettum.