FS kom best út í úttekt Ríkisendurskoðunar
– fjárhagsstaða skólans ekki góð þrátt fyrir það.
Kristján Ásmundsson, skólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, segir að það sé alveg ljóst að bág fjárhagsstaða framhaldsskóla sé farin að bitna á þjónustu við nemendur. Skólinn kom best út í úttekt Ríkisendurskoðunar á fjármálum framhaldsskóla. RÚV greinir frá þessu.
Samkvæmt skýrslunni þarf menntamálaráðuneytið að bregðast tafarlaust við bágri rekstarstöðu framhaldsskólanna. Þeir voru reknir með 109 milljóna króna halla á síðasta ári og framlög til þeirra drógust saman um tvo milljarða 2008 til 2012. Útlit er fyrir að staðan versni á þessu ári.
Fjölbrautaskóli Suðurnesja kom best út, en hann skilaði næstmestum afgangi í fyrra og hefur sterkasta eiginfjárstöðu. Kristján Ásmundsson skólameistari segir að fjárhagsstaða skólans sé ekki góð þrátt fyrir það.
„Við höfum bara eins og allir reynt að hagræða í okkar rekstri. Við erum búin að vera að spara í tækjakaupum og búnaðarkaupum og það kemur að þeim tímapunkti að það sé ekki hægt lengur,“ segir Kristján í viðtali við RÚV.
Kristján segir afganginn skýrast af rúmlega þrjátíu milljóna króna uppbótum sem skólinn fékk í janúar fyrir ýmis þróunarverkefni sem hann stóð að. Þau verkefni verða ekki endurtekin í ár. Því gefur skýrslan ekki rétta mynd af fjárhagsstöðu skólans, sem er ekki góð frekar en annars staðar. Samkvæmt skýrslunni minnkaði þjónusta framhaldsskólanna ekki þrátt fyrir niðurskurð, en Kristján segir það rangt. Bág fjárhagsstaða sé farin að bitna á nemendum og það sé alvarlegt mál. „Við höfum til þessa getað fleytt okkur áfram á svona styrkjum og annað. Þegar þeir minnka þá minnkar náttúrulega þeir fjármunir sem við höfum til ráðstöfunar. Sama er í öðrum skólum. Auðvitað bitnar þetta á þjónustu við nemendur, það er alveg augljóst,“ segir Kristján.