Fyrirgefðu mér Garðvangur
Um daginn setti ég inná samskiptarvefinn Facebook mynd af „liðsmanni“ Bláa hersins þar sem hann er neðansjávar að þrífa upp rusl. Þetta RUSL sem sést á myndinni var m.a. hjólastóll. Þegar „áhugasamir“ vegfarendur voru síðan að skoða það sem Blái herinn hafði hreinsað upp við bryggjuna í Garðinum var þessi blessaði hjólastóll bendlaður við Dvalarheimilið Garðvang.
Sá ágæti forstöðumaður þeirrar stofnunar hafði samband við mig og þótt mjög miður að starfsfólkið hans og Garðvangur skildi vera nefnt þar á nafn af undirrituðum. Einnig kom fram hjá honum að hann hefði miklar mætur á starfi Bláa hersins og þakkaði þar vel unnið starf í gegnum tíðina.
Undirritaður harmar það að hafa „haft eftir vegfarenda“ þau orð að hjólastóllinn væri frá Garðvangi. Ég er miður mín að hafa sett þetta svona „kjánalega“ fram og á þá ósk heitasta að mér verði fyrirgefið af forstöðumanni DS og öllum viðeigandi starfsmönnum Garðvangs.
Um leið og ég rétti út sáttarhönd langar mig til þess að þú lesandi góður vitir það að í fórum okkar hjá Bláa hernum eigum við nöfn allt of margra aðila sem skilið hafa eftir sig rusl og drasl um allan Reykjanesskagann sem við höfum „sem betur fer“ ekki sett út á almannasíður eða til fjölmiðla.
Með vinsemd og virðingu
Tómas J. Knútsson
Formaður Bláa hersins