Getum búist við snörpum eftirskjálftum
Búast má við eftirskjálftum upp á 3 á Richter í kjölfar jarðskjálftans vestan við Grindavík nú áðan. Sá skjálfti var upp á 4,3 á Richter og fannst vel í Grindavík og einnig víða í Reykjanesbæ.
Blaðamaður Víkurfrétta var staddur á 3. hæð í skrifstofuhúsi í Njarðvík og þar fannst greinileg bylgjuhreyfing. Annar blaðamaður var á bæjarstjórnarfundi í DUUShúsum og þar fann fólk vel fyrir jarðhræringunum. Fólk var einnig að hristast víðar um bæinn og var brugðið, enda höggið eða hristingurinn frá skjálftanum nú svipaður því þegar Suðurlandsskjálftinn reið yfir snemma í sumar.
Jarðeðlisfræðingar Veðurstofu Íslands eiga eftir að greina gögn úr skjálftanum áðan til að geta sagt nánar til um hann. Þar á bæ eiga menn hins vegar von á að enn eigi eftir að skjálfa á Reykjanesi og láta sér ekki eftirskjálfta upp á 3 á Richter koma á óvart.