Fréttir

Góður árangur í rekstri bæjarsjóðs
Föstudagur 4. maí 2012 kl. 09:19

Góður árangur í rekstri bæjarsjóðs

Reikningar Sandgerðisbæjar fyrir árið 2011 voru samþykktir í síðari umræðu í bæjastjórn Sandgerðis á miðvikudag. Við það tækifæri gerði S-listinn í Sandgerði eftirfarandi bókun:
 
Rekstrarniðurstaða ársreiknings 2011 sýnir að góður árangur hefur náðst í rekstri bæjarsjóðs með endurskipulagningu og aðhaldi. Til marks um það hefur framlegð sveitarfélagsins í A-hluta færst frá því að vera neikvæð um 7,2% á árinu 2010 í það að vera jákvæð um 8,5% í lok árs 2011. Framlegð A og B hluta fer úr 2,7% í 13,9% á milli ára.
 
Þessi árangur hefur náðst með samstilltu átaki. S-listinn þakkar fulltrúum allra lista í bæjarstjórn fyrir samstöðu og góða samvinnu. S-listinn þakkar einnig starfsfólki sveitarfélagsins fyrir þátt þess í þeim árangri sem náðst hefur. S-listinn þakkar bæjarbúum öllum þann skilning sem þeir hafa sýnt á aðgerðum bæjarstjórnar og erfiðri stöðu bæjarsjóðs.
 
Þrátt fyrir þennan árangur er nauðsynlegt á næstu árum að halda áfram á þeirri braut sparnaðar og aðhalds sem nú hefur verið mörkuð. 
 
Helsti vandi sveitarfélagsins er miklar skuldir og skuldbindingar. Tekist hefur að lækka skuldir lítillega milli ára. Skuldahlutfall A- og B- hluta árið 2010 var 455% en í lok árs 2011 var það komið niður í 387%.  Stefnt er að því að ná þessu hlutfalli enn frekar niður á þessu ári eða í 260%.
 
Það er markmið S-listans að stýra málum þannig að bæjarsjóður ráði við útgjöld og skuldir,  og að rekstur sveitarfélagsins og sú þjónusta sem sveitarfélagið veitir sé til fyrirmyndar.