Fréttir

Grafið fyrir háhraðatengingu í Grindavík
Þriðjudagur 3. júlí 2012 kl. 09:49

Grafið fyrir háhraðatengingu í Grindavík

Líkt og Grindvíkingar hafa væntanlega tekið eftir hefur nokkurt jarðrask verið í bænum að undanförnu. Ástæðan eru framkvæmdir Mílu við ljósnet Símans en settir verða upp 15 götuskápar víðs vegar um bæinn. Með Ljósnetinu fæst háhraðanettenging sem verður bylting fyrir Grindvíkinga. Framkvæmdir ganga vel og eru samkvæmt áætlun, segir á heimasíðu Grindavíkurbæjar.

Í fyrsta áfanga, sem lýkur 13. júlí, verða jarðvegsframkvæmdir við Vesturhóp, Suðurhóp, Austurhóp, Árnastíg, Gerðavelli, Blómsturvelli, Efstahraun, Heiðarhraun, Leynisbraut, Selsvelli, Víkurbraut, Ránargötu og Austurveg. Síðan tekur við sumarfrí en framkvæmdir halda áfram í ágúst þar sem allur bærinn verður kláraður.

Athygli vekur hversu snyrtilega Míla gengur frá eftir jarðrask og framkvæmdir. Myndin var tekin af Mílumönnum á horni Víkurbrautar og Efstahrauns í gær.

Mynd: Grindavik.is