Fréttir

Hitafundur í bæjarstjórn í gær: Rúmlega tveggja klukkustunda umræða um málefni HS
Miðvikudagur 17. október 2007 kl. 09:03

Hitafundur í bæjarstjórn í gær: Rúmlega tveggja klukkustunda umræða um málefni HS

Mikil umræða var á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ í gærkvöld um málefni Hitaveitu Suðurnesja, Geysir Green Energy, REI og einkavæðingu orkufyrirtækja. Stóð umræðan yfir í rúmlega tvær klukkustundir en fá dæmi eru um að umræða um eitt einstakt málefni hafi tekið svo langan tíma. Alls stóð fundurinn yfir í hátt á þriðju klukkustund.

Árni Sigfússon, bæjarstjóri, opnaði umræðuna í upphafi fundar þegar  hann kynnti það sem hann kallar 5 samningsmarkmið Reykjanesbæjar vegna breytinga á eignaraðild að Hitaveitu Suðurnesja. Upphófust snarpar umræður um þetta mikla hitamál og lagði minnihlutinn fram harðorða bókun þar sem meirihlutinn er sagður hafa misst tökin í Hitaveitu Suðurnesja.

Sumum varð nokkuð heitt í hamsi í fundinum, jafnvel svo að Böðvar Jónsson, bæjarfulltrúi D-lista, sá ástæðu til að fara fram á það við forseta bæjarstjórnar að hann beitti 25. grein bæjarmálasamþykkta og ávítti bæjarfullltrúa A-lista, Sveindísi Valdimarsdóttur, fyrir ummæli hennar í garð bæjarfulltrúa D-lista.
Björk Guðjónsdóttir, forseti bæjarstjórnar, gerði það hins vegar ekki en sá ástæðu til að minna bæjarfulltrúa á gæta orða sinna og koma fram af virðingu, þó harkalega væri tekist á um málefni.


Mynd: Frá bæjarstjórnarfundinum í gær. Eins og við var að búast var hart tekist á um málefni Hitaveitu Suðurnesja. VF-mynd: elg.