Fréttir

Fimmtudagur 31. maí 2001 kl. 09:07

Hræðilegt ástand á Hryggnum

Karfavertíðin á Reykjaneshryggnum er í uppnámi. Aflabrögðin eru óvenjulega léleg. Enginn karfi hefur fundist innan íslensku landhelginnar og margar íslenskar togaraútgerðir hafa kallað skip sín heim frá karfaveiðunum og sent þau á grálúðuveiðar innan landhelginnar.
Sjómenn segja að það sé mjög óvenjulegt að enginn karfi hafi fundist inni í landhelginni. Flestir fóru á miðin 12. apríl sl. og höfðu þá verið að fá um tonn á togtímann. Nú hafa sjómenn leitað af sér allan grun innan landhelginnar og telja að annað hvort sé karfinn enn ekki kominn á miðin eða að göngumynstur hans hafi breyst. Þriðja skýringin er sú að stofninn sé ekki burðugri en þetta.
Karfinn, sem veiðst hefur innan og rétt utan íslensku landhelginnar undanfarin ár, er góður djúpkarfi en hinn eiginlegi úthafskarfi veiðist mun grynnra og sunnar á veiðislóðinni. Hann er töluvert sýktur af sníkjudýrum og þykir mun lakara hráefni en karfinn við landhelgismörkin.
Útlitið er ekki gott en enn er möguleiki á grálúðuveiðum við Grænland og von um karfaveiðar á hryggnum. Sumir hafa þegar gefist alveg upp á karfanum og eru farnir vestur á grálúðuveiðar.
Gnúpur GK er kominn á grálúðuveiðar og fleiri íslenskir togarar hafa fylgt í kjölfarið.