HS Orka vann liðakeppnina í Mottumars
Suðurnesjamenn stóðu sig vel í átakinu Mottumars. HS Orka safnaði hæstu fjárhæð allra þetta árið og vann liðakeppnina með miklum mun. Hópur starfsmanna innan fyrirtækisins sem stóð að söfnuninni fékk loforð frá HS Orku við upphaf söfnunarinnar að fyrirtækið myndi tvöfalda þeirra upphæð. Þeir náðu að vera hæstir áður en framlag fyrirtækisins bættist við. Í hópnum eru m.a. fyrrverandi körfuboltahetjur úr liði Njarðvíkur, þeir Páll Kristinsson og Friðrik Ragnarsson.
Alls safnaði HS Orku liðið 1.239.000 krónum og stefnir því í birtingu afkomuviðvörunar hjá fyrirtækinu. „Þetta var frábært framtak hjá liðinu og HS Orka er stolt af því að standa við bakið á því og eiga þátt í því að koma þeim yfir línuna. Líklega hefði sigurinn náðst án framlags HS Orku sem sýnir kraftinn og samheldnina í hópnum en lykilatriði er að stór fjárhæð safnaðist í gott málefni sem mun vafalítið nýtast vel í baráttunni þegar fram líða stundir,“ segir í tilkynningu frá HS Orku.
Flugakademía Íslands á Ásbrú var ofarlega í liðakeppninni en hún safnaði 486 þúsund krónum.
Nokkrir einstaklingar á Suðurnesjum stóðu sig vel í Mottumars. Jón Tryggvi Arason var hæstur Suðurnesjamanna með 85 þúsund, Kristján Reykdal 81 þúsund krónur, Siggi Svans 75 þúsund, Páll Kristinsson 71 þúsund og Gunnlaugur Dan Guðjónsson 70 þúsund.