Fréttir

Hugsa ekki með Grindavíkurhjartanu
Heilsuleikskólinn Krókur.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
föstudaginn 5. janúar 2024 kl. 14:28

Hugsa ekki með Grindavíkurhjartanu

Yfirlýsing frá starfsmönnum Heilsuleikskólans Króks vegna hamfaranna í Grindavík

Starfsmenn Heilsuleikskólans Króks í Grindavík eru afar ósáttir með ákvörðun bæjaryfirvalda í Grindavík í kjölfar þess að þau sögðu upp rekstrarsamningi við Skóla ehf.  Í yfirlýsingu til bæjaryfirvalda og birt er fyrst hér á vf.is segjast starfsmenn Króks mjög ósáttir með ákvörðun Grindavíkurbæjar að nýta ekki krafta starfsmanna leikskólans og biðla til bæjarins um að endurskoða afstöðu sína.

Yfirlýsing frá starfsmönnunum Króks:

Í ljósi umræðunnar og misvísandi upplýsinga sem bæjarstjórn Grindavíkur hefur gefið frá sér viljum við starfsfólk Heilsuleikskólans Króks, koma eftirfarandi á framfæri.

Fyrir 23 árum ákvað bæjarstjórn Grindavíkur að fela einkaaðila að sjá um rekstur Heilsuleikskólans Króks og síðan þá höfum við þjónustað samfélagið með farsæld barnanna okkar að leiðarljósi. 23 árum seinna ákveður bæjarstjórnin að þiggja ekki lengur okkar þjónustu með því að segja upp þjónustusamningi við Skóla ehf. og síðan að ganga ekki til samninga við 36 starfsmenn um að halda starfsemi Heilsuleikskólans Króks gangandi. Með þeim gjörningi er lífi barna, foreldra og starfsmanna Króks, snúið á hvolf enn einu sinni eftir hræðilegar hamfarir, það þykir okkur sárt að horfa upp á.

Okkur sárnar líka að upplifa það að sjá ummæli frá bæjaryfirvöldum eins og að það sé: „Okkar vilji (bæjarstjórnar) að enginn missi vinnuna sína“ og að „það sé vilji Grindavíkurbæjar að bjóða öllu starfsfólki á Króki sambærileg störf hjá Grindavíkurbæ“ (tölvupóstur til foreldra). Vegna þess að okkur hefur ekki verið formlega boðin störf hjá Grindavíkurbæ eða tjáð að allir þeir sem myndu sækja um auglýst störf á Laut fái vinnu.

Frá upphafi þessara hamfara hafa stjórnendur verið í góðu samstarfi við starfsmenn

skólaþjónustunnar um að byggja upp leikskólastarf á höfuðborgarsvæðinu með hagsmuni barnanna að leiðarljósi, enda geta þau vitnað um það. En eftir að samningi við Skóla ehf. var sagt upp fór af stað atburðarrás þar sem byrjað var á því að bjóða bara níu leikskólakennurum Króks störf á Laut en skilja annað starfsfólk eftir án atvinnu. Leikskólakennararnir gátu ekki hugsað sér að taka þessu tilboði og

skilja þar með samstarfsmenn sína eftir í óvissu og enn einu áfallinu.

Í kjölfarið voru stjórnendur boðaðir til samningaviðræðna við skólaþjónustuna um lausn í málinu. Stjórnendur lögðu alltaf áherslu á að öllum starfsmönnum yrði boðin störf og að börnunum yrði tryggð full starfsemi eftir jól, hvort sem var á einum og sama staðnum eða á fleiri en einum stað.

Í ferlinu fengum við stéttarfélögin okkar með til að gæta hagsmuna okkar. Stéttarfélögin töldu að um svokölluð aðilaskipti væri að ræða sem eru lög sem tryggja réttindi starfsmanna í svona ferli. Það gat bæjarstjórn ekki samþykkt þar sem það yrði of mikill kostnaður, sem er sérstakt þar sem ekki er verið að greiða þjónustugjaldið til Skóla ehf. lengur þar sem samningnum var sagt upp. 

Við starfsmenn á Króki upplifum að með þessari ákvörðun hafi ekki verið hugsað með GRINDAVÍKURHJARTANU, heldur exelskjali, lögfræðiálitum og peningum. Við sitjum eftir í enn einni óvissunni um framtíð okkar, með sorg og söknuð í hjarta yfir að hafa misst okkar dásamlega leikskólasamfélag sem Heilsuleikskólinn Krókur var.

Þær hörmulegu aðstæður sem við Grindvíkingar erum í núna eru af völdum náttúrunnar sem við ráðum ekkert við, en þær aðstæður sem börn, foreldrar og starfsmenn Heilsuleikskólans Króks í Grindavík eru í núna eru mannanna verk sem hægt er að snúa við.

Bæjaryfirvöld Grindavíkur hafa biðlað til alþingis og þjóðarinnar um að grípa Grindvíkinga í þessum aðstæðum. Nú biðlum við til bæjaryfirvalda um að grípa okkur með því að endurskoða afstöðu sína í þessu máli og bjóða börnum, foreldrum og starfsmönnum á Króki að starfrækja áfram leikskólasamfélagið okkar sem hefur þjónað bæjarfélaginu okkar af heilindum frá upphafi.

Með vinsemd og virðingu

Starfsmenn Heilsuleikskólans Króks