Húsnæði Sparisjóðsins lýst bleikum bjarma í kvöld

Snyrtivörufyrirtækið Estée Lauder býður bleikar slaufur til sölu á um þrjátíu sölustöðum sínum hér á landi og þar verður tekið við frjálsum framlögum í sérmerkta söfnunarbauka. Öllum ágóða af sölunni verður varið til verkefna sem valin verða í samráði við Krabbameinsfélagið og Samhjálp kvenna, sem eru samtök kvenna sem greinst hafa með krabbamein í brjóstum.
Ár hvert greinast 160-170 íslenskar konur með brjóstakrabbamein, þar af er nær helmingurinn á aldrinum frá 30 til 60 ára. Fjöldi nýrra tilfella hefur verið að aukast en lífshorfurnar hafa einnig batnað mikið. Um helmingur kvenna sem greindust með brjóstakrabbamein fyrir fjörutíu árum lifðu í fimm ár eða lengur en nú geta um 80% vænst þess að lifa svo lengi. Nú eru á lífi rúmlega 1700 konur sem fengið hafa brjóstakrabbamein. Samkvæmt útreikningum frá Krabbameinsskránni getur tíunda hver kona búist við að fá brjóstakrabbamein.
Hér á landi eru konur hvattar til að koma til brjóstamyndatöku annað hvert ár frá og með 40 ára aldri. Erlendar rannsóknir benda til þess að með því að taka röntgenmyndir reglulega af brjóstum kvenna megi lækka dánartíðni vegna krabbameins í brjóstum verulega.
Hægt er að fá bæklinga og upplýsingar um flest er snýr að brjóstakrabbameini á Heilsugæslu Suðurnesja. Þá stendur til að enduropna skrifstofu Krabbameinsfélags Suðurnesja í október, í húsnæði Rauða krossins að Smiðjuvöllum 8. Þar verður hægt að nálgast bæklinga og upplýsingar um hinar ýmsu tegundir af krabbameini og fá ráðleggingar um hvert fólk getur snúið sér. Opnunartíminn verður auglýstur bráðlega.