Fréttir

Húsnæðið óhæft til móttöku flóttafólks
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
fimmtudaginn 3. nóvember 2022 kl. 16:58

Húsnæðið óhæft til móttöku flóttafólks

„Að mati bæjarráðs er húsnæðið óhæft til móttöku flóttafólks og því óskar bæjarráð eftir fundi með Vinnumálastofnun,“ segir í afgreiðslu bæjarráðs Grindavíkur á erindi frá Vinnumálastofnun er varðar móttöku flóttafólks að Víkurbraut 58 í Grindavík.

Erindi frá Vinnumálastofnun, dags 20. október sl., var lagt fyrir bæjarráð Grindavíkur á þriðjudag en með erindinu vill stofnunin upplýsa um fyrirhugaða leigu á húsnæði fyrir alþjóðlega vernd sem og að kanna hvort sveitarfélagið myndi vilja gera þjónustusamning er snýr að félagslegri þjónustu og stuðningi við umsækjendur um alþjóðlega vernd.

Í afgreiðslu bæjarráðs Grindavíkur segir að bæjarráð geri athugasemdir við það að Vinnumálastofnun leigi húsnæði í sveitarfélaginu til mótttöku flóttafólks án samráðs við bæjaryfirvöld.