Hvað er með þennan hól?

Moldarhóllinn sá arna mun sumsé fá hlutverk útsýnishóls þegar yfir lýkur. Í hann hefur verið ekið því efni sem til fellur við framkvæmdir í hverfinu og er um þessar mundir verið að móta hann endanlega. Síðan verður hann klæddur með gróðri, að sögn Viðars Más Aðalsteinssonar, forstöðumanns Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjanesbæjar.
Hóllinn verður eins konar útvistar- og útsýnispunktur hverfisins. Þaðan verður hægt að sjá vítt og breytt til allra átta og ekki er ólíklegt að útsýnisskífu verði komið fyrir á honum. Upp á hólinn verða lagðar göngubrautir og svo er þarna komin alveg öldungis fín sleðabrekka sem ætti að kæta það ungviði sem alast mun upp í hverfinu þegar fram líða stundir.