Miðvikudagur 23. júlí 2003 kl. 21:49
Hvalhræ dregið á haf út

Björgunarsveitin Sigurvon í Sandgerði tók að sér að farga hrefnuhræi sem rak á land neðan við Fitjar í Sandgerðislandi á dögunum. Siggi Guðjóns, dótturbátur björgunarskipsins Hannesar Þ. Hafstein, var notaður til að draga hræið á haf út og sökkva því. Einnig var slöngubátur með í för. Menn frá Hafrannsóknastofnun tóku í gær sýni úr hvalnum og gerðu á honum nauðsynlegar rannsóknir.Staðfestu vísindamennirnir, Þorvaldur Gunnlaugsson og Sverrir Daníel Halldórsson í samtali við Morgunblaðið, að um væri að ræða hrefnutarf. Sögðu að hann væri ungur en orðinn kynþroska. Mældist hann 7,4 metrar á lengd. Hrefnan er búin að vera að velkjast í sjónum í nokkrum tíma og var því farin að lykta illa.
Myndin: Hvalhræið dregið á haf út í gærkvöldi. VF-mynd: Hilmar Bragi