Fréttir

Hverfa Glaðheimar?
Mánudagur 12. febrúar 2007 kl. 14:05

Hverfa Glaðheimar?

Líklegt má telja að Glaðheimar, samkomuhús Voga, muni brátt heyra sögunni til. Þykir ástand hússins orðið það bágborið að ekki borgi sig að gera það upp. Bæjarráð leggur til að það verði fjarlægt.

Ástandsskýrsla byggingafulltrúa varðandi Glaðheima var lögð fram á síðasta fundi bæjarráðs í Vogum, en úttektin sýnir að húsið er mjög illa farið. Segir í fundargerð bæjarráðs að miðað við ástand hússins megi ljóst vera að það verði ekki gert upp heldur verði að byggja það frá grunni, eigi að vera þar einhver starfsemni. Niðurstöður úttektar byggingafulltrúa eru áþekkar niðurstöðum úttektar Verkfræðistofu Suðurnesja frá árinu 1987, þannig að strax þá var ljóst hvernig ástand hússins var orðið.

Bæjarráð leggur því til að húsið verði fjarlægt þegar starfsemi félagsmiðstöðvarinnar, frístundaskólans og annað tómstundastarf flyst í nýja viðbyggingu við íþróttamiðstöðina.

Mannfagnaðir af ýmsu tagi, hvort sem um er að ræða alvöru sveitaböll eða settlegar fermingarveislur, hafa farið fram í Glaðheimum í áratugi. Án efa verður því mörgum eftirsjá í húsinu ef tillaga bæjarráðs nær fram að ganga, enda eflaust margar hlýjar minningar tengdar þessu samkomuhúsi Vogamanna.