IGS fyllir nýtt gistihús af starfsmönnum
— 60 herbergja starfsmannahús rís við slippinn í Njarðvík
Fyrirtækið Potter II byggir nú 60 herbergja starfsmannahús við slippinn í Njarðvík. Húsnæðið var áður í eigu Skipasmíðastöðvar Njarðvíkur en skipasmíðastöðin hafði ekki lengur not fyrir húsið sem í voru smiðjur, mötuneyti og skrifstofur.
Potter II er í eigu þriggja athafnamanna í Reykjanesbæ, Karls Finnbogasonar, Vignis Óskarssonar og Þorleifs Björnssonar. Þeir keyptu húsnæðið af Skipasmíðastöð Njarðvíkur fyrir um ári síðan og hófu þá stax að undirbúa verkefnið. Undirbúningi lauk í lok sumars og framkvæmdir eru nú á fullu við breytingar á húsnæðinu. Meðal annars er unnið að því að bæta einni hæð ofan á húsið.


Karl Finnbogason hjá Potter II sagði í samtali við Víkurfréttir að samið hafi verið um útleigu á húsinu til IGS. Í því verði 60 tveggja manna herbergi og verður húsinu skilað til leigjanda fullbúnu húsgöngum. „Hér verður allt nema tannbursti,“ sagði Karl í samtali við blaðið.
Horft er til Mar guesthouse í Grindavík við frágang á húsinu við slippinn í Njarðvík. Þannig verður húsið klætt flísum að utan og allur frágangur innandyra vandaður og mun uppfylla allar þær kröfur sem gerðar eru til starfsmannahúsa sem þessara.


Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að bæta þriðju hæðinni ofan á húsið og hefur það verkefni gengið vel eða allt til á þriðjudagsmorgun að fyrsta óveðurslægð ársins olli smá tjóni. Veggur skekktist undan óveðrinu en Karl átti ekki von á því að tjónið myndi tefja verkið.
Um 20 iðnaðarmenn eru að störfum við uppbyggingu og breytingar á húsinu. Fyrstu herbergin verða afhent IGS um miðjan apríl og um miðjan maí er ráðgert að framkvæmdum verði að fullu lokið og herbergin 60 tilbúin. Þá geti 100-120 starfsmenn IGS flutt inn í húsið.

Veggur á nýbyggingunni skekktist undan óveðri snemma á þriðjudagsmorgun. Tjónið mun ekki tefja verkið að ráði.