Fréttir

Þriðjudagur 24. apríl 2001 kl. 09:59

Innbrot í aðstöðu við Gokartsvæði

Þrír gistu fangageymslur lögreglunnar vegna ölvunar og óspekta a almannafæri aðfaranótt skírdags að sögn Karls Hermannssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns í Keflavík.
Að öðru leyti var helgin óvenju róleg. Þrjár tilkynningar bárust um innbrot í bíla en í þeim tilvikum var einungis rótað í bílunum en engu stolið. Eitt þessara mála er að fullu upplýst en komið var að manninum þar sem hann var að eiga við bíl í Grindavík. Aðfaranótt 19. apríl barst lögreglu tilkynning um að skemmdarverk á vinnuvél í Helguvík.
Föstudaginn 20. apríl féll stúlka af hestbaki við Mánagrund. Stúlkan var flutt á sjúkrahús með minniháttar áverka. Maður stöðvaði lögreglu á eftirlitsferð á Reykjanesbraut og tilkynnti um innbrot í bíl sinn. Eigandi bílsins hafði skilið hann eftir á Strandarheiði en þegar hann snéri aftur til að sækja bílinn á föstudag hafði geislaspilara og geisladiskum verið stolið úr bílnum.
Ungur ökumaður missti stjórn á bíl sínum við Miðgarð í Grindavík með þeim afleiðingum að bíllin stakkst ofan í grjótgarðinn. Bíllinn er mikið skemmdur en ökumaður slapp ómeiddur. Um helgina barst lögreglu í tvígang kvörtun vegna ölvunar í grend við íbúðarhús. Fyrra skiptið var um hádegi á laugardag en hið seinna á sama tíma á sunnudag. Þá var ein líkamsárás kærð í heimahúsi. Aðfaranótt laugardagsins 21. apríl var brotist inn í aðstöðu við Gokartsvæðið fyrir ofan Njarðvík. Þjófarnir höfðu á brott með sér sjónvarðstæki, myndavél og kr. 8000,- í peningum. Um miðjan dag á laugardag rákust jeppi og fólkflutningabíll saman við Fitjar. Farþegi í jeppanum var fluttur á sjúkrahús til rannsóknar en reyndist lítið slasaður. Bílarnir eru báðir óökuhæfir.
Lögreglan stöðvaði 22 ökumenn fyrir of hraðann akstur og 37 voru ákærðir fyrir að vanrækja aðalskoðun.