Fréttir

Þriðjudagur 16. mars 2004 kl. 09:06

Já, ráðherra

Á Suðurnesjum hefur ekki verið ráðherra frá stofnun lýðveldisins. Ég hef það á tilfinningunni að ríkisvaldið sé orðið því vant að lítið þurfi að þjóna þessu svæði. Nú á síðustu árum hefur þetta verið mjög áberandi og framkoma nokkurra ráðherra tekið af öll tvímæli hvað þetta varðar.
Við skulum hugsa okkur að Stokksnesið, sem nú hefur verið yfirgefið af Bandaríkjaher myndaði tungu sem skiptir miðjum Hornafjarðarbæ. Utanríkisráðherra er búinn að taka við landinu og hagnast um hundruð milljóna á þeim viðskiptum. Ágætu Suðurnesjamenn sjáið þið það fyrir ykkur ef staðan væri þessi að Utanríkisráðherra byði þetta land út til hæstbjóðanda. Ég þarf ekki að hugsa mig lengi um landið hefði verið afhent án gjaldtöku og greiddar bætur fyrir, jafnvel hefði verið þakkað fyrir afnotin. En af því að Nikkelsvæðið er á milli Keflavíkur og Njarðvíkur  telur utanríkisráðherra sjálfsagt að við greiðum háar fjárhæðir fyrir landið sem tekið var eignarnámi og sáralítið greitt fyrir það á sínum tíma. Ekki dugar að benda á að fyrrverandi landeigendur hafi átt forkaupsrétt því ráðherra sem gat skipt landinu upp í kvótasvæði norður og suðurhluta og haft Hornafjörð með norðurhluta sem gaf 20% meiri kvóta,  ætti  ekki að vera í vandræðum með að semja við landeigendur um framreiknað verð fyrir landið. Ríkisvaldið er orðið svo vant að hunsa okkar landshluta að engu tali tekur.

Ráðherra með sérstakan áhuga á jöfnuði
Nú nýverið taldi iðnaðar og viðskiptaráðherra nauðsynlegt að jafna flutningsgjald á raforku með því að skattleggja m.a. Suðurnesin en varð að láta í minni pokann vegna harðfylgis HS og OR. Hvað er jöfnuður í huga ráðherra, nú nýverið var úthlutað úr nýsköpunarsjóði  550 milljónum þar af fóru  400 milljónir  í kjördæmi ráðherra og ekki nóg með það, þetta kom henni algerlega á óvart en einhver kynni að halda því fram að þetta séu innherjaviðskipti. Nú vill hún fella niður flutningsgjald á sementi og get ég verið því sammála  í megin atriðum en ég efast um að ráðherra beitti sér í þessu máli ef sementsala væri td. frá Húsavík í stað Helguvíkur hvað þá ef Sementverksmiðja ríkisins væri starfandi. Eitt er víst að ekki verða þessir ráðherrar vændir um að vera hér á atkvæðaveiðum, ljóst er að þeir leggja allt sitt traust á gullfiskaminni kjósenda. Ef það er vilji ráðherra að stuðla að jöfnuði þá eru hæg heimatökin í þeim efnum td. að jafna lífeyrisréttindi, jafna atkvæðisrétt, jafna styrkjum og greiðslum á landshluta svo fátt eitt sé nefnt.
Því miður blasir allt annar veruleiki við flestum landsmönnum,  þingið sýndi einstakt framtak í eftirlaunamálinu, sjálfshyggjan endurspeglast í því máli.

Hæpin fjárfesting
Reykjavíkurborg líður fyrir Reykjavíkurflugvöll, hundruðum milljóna er varið til endurbóta á flugvellinum jafnvel þó vélskóflukjaftarnir bíði á hliðarlínunni til að moka honum í burtu en mörgum þingmönnum finnst þetta hentugt.

Samanburður á fjárveitingum
Gaman væri að fá samanburðartölur á fjárveitingum og styrkjum td. Eyjafjarðarsvæðinu og Suðurnesjum þá kemur sennilega í ljós hvað er jöfnuður í hugum ráðamanna. Það má margt læra af slíkum samanburði td. jöfnuði og hver er að greiða niður fyrir hvern. Ef til vill eiga  þingmenn okkar í erfiðleikum með að koma Suðurnesjum á fjárlagakortið eftir áratuga utanveltu, en ástæðan er einföld við höfum aldrei átt málsvara á ríkisstjórnarfundi, til þess þarf ráðherra.

Ráðherra margra þingsæta virði.
Nú á haustmánuðum verða hrókeringar á ráðherrastólum og gefur það ekki tilefni til bjartsýni fyrir okkur Suðurnesjamenn. Það væri mikil bót fyrir kjósendur og lýðræðið ef ráðherraefni væru tilgreind á framboðslistum, landið gert að einu kjördæmi og hagur heildarinnar hafður að leiðarljósi en eins og málum er nú komið er ráðherra margra þingsæta virði. Framganga Eyjafjarðarráðherra undirstrikar græðgisvísitöluna og vanhæfni ýmissa þingmanna til að vinna að hag heildarinnar. Hér gefst nú kjörið tækifæri til að rétta af margra áratuga slagsíðu og tilnefna ráðherra af Suðurnesjum.

Sturlaugur Björnsson.