Þriðjudagur 27. ágúst 2002 kl. 11:42
Keflavíkurhraðlestin verður að veruleika – í framtíðinni

Hugmyndinni um járnbrautarlest milli Keflavíkur og Reykjavíkur er ekki hafnað þó svo niðurstöður breskra ráðgjafa sýni að rekstur hennar sé ekki hagkvæmur. Ekki er búið að taka alla þætti með í reikninginn. Járnbrautarlest milli Reykjavíkur og Keflavíkur er ekki hagkvæm miðað við þær forsendur sem gefnar eru, segir í nýrri skýrslu sem breska ráðgjafafyrirtækið AEA Thechnology Rail gerði fyrir Orkuveitu Reykjavíkur og borgarverkfræðing.Alfreð Þorsteinsson borgarfulltrúi segir í samtali við Ríkisútvarpið að þrátt fyrir það sé ekki spurning um hvort heldur hvenær járnbrautarsamgöngum verði komið á fót í Reykjavík. Um er að ræða síðari hluta úttektar á hagkvæmni reksturs járnbrautar milli Reykjavíkur og Keflavíkur. Í fyrri hluta hennar var athugað hvort borgaði sig að reka járnbrautarlest milli Keflavíkurflugvallar og Mjóddarinnar í Reykjavík. Sú könnun leiddi í ljós að stofnkostnaður yrði aldrei greiddur af lestargjöldum en að þau myndu standa undir rekstri. Ákveðið var að kanna hvort reksturinn yrði hagkvæmari ef lestin færi á milli Keflavíkur- og Reykjavíkurflugvalla. Sú skýrsla liggur nú fyrir og verður rædd í borgarráði og hjá skipulagsnefnd borgarinnar á næstu dögum.