Fréttir

Kennir heilun, miðlun og hugleiðslu
Þriðjudagur 28. júní 2005 kl. 18:05

Kennir heilun, miðlun og hugleiðslu

Reynir Katrínarson er þekktur undir ýmsum nöfnum. Hann er myndlistarmaður, spámaður og heilari svo eitthvað sé nefnt. Hann hefur ennfremur verið að byggja upp námskeið í heilun en starfsferill hans sem heilari nær aftur til ársins 1988.

Reynir byrjar heilun á samtali, þaðan er farið yfir áruna með klappsteinum en þeir eru notaðir til að fá meiri virkni í áruna og svo sjá megi í hverju þurfi að vinna. Líkaminn er síðan jafnaður út með að sækja í upplýsingar úr ýmsum áttum. Einstaklingurinn sem er í heilun er virkur þáttakandi og miðlar af upplifun sinni til heilarans.

Reynir  hefur unnið að sköpun heilunar námskeiða síðan 1991. „Ég hef verið að setja saman pakka sem kallast Frigg-heilun. Þetta byrjaði á því að ég var að kenna nudd svo þróaðist þetta meira út í heilun. Nú er ég að kenna námskeið í heilun, hér í Sandgerði, Noregi og New Mexico,“ sagði Reynir. Í Noregi hefur hann verið með helgarnámskeið og fer hann svo utan til áframhaldandi kennslu. Þá hafa Norðmenn sótt í að koma hingað til lands og læra heilun.

Fyrir um ári setti Reynir upp heilunarskóla, með Ragnhildi Sigurðardóttur, nú búsett í Noregi og Runólfi Sveinssyni, búsettur á Hellu, sem nefnist Hvít við bláinn. Þar er meðal annars lögð áhersla á að kenna slökunarnudd, miðlun, hugleiðslu, þrýstipunkta, að viðbættum gyðjunum.

„Ég býð upp á kennslu í litlum hópum, um 4 til 8 manns í hverjum hópi. Fólkið sjálft getur valið um lengd námskeiðanna. En þau eru allt frá því að vera dagsnámskeið, yfir helgi eða lengri námskeið. Vinahópar koma stundum saman eða þá að ég raða manneskjum saman í hópa,“ segir Reynir og bætir við að aðstaða til kennslu sé mjög góð.

Reyni er ýmislegt til lista lagt, fyrr á árinu var sett upp verk eftir hann í New Mexico. Verkið fjallar um ljóð hans um sextán gyðjur og kenndi hann dönsurum hreyfingar hverrar gyðju. Háskólinn á svæðinu skipulaði tónlistina á sýningunni enda sérhæfir hann sig í slíku námi. „Vonandi kemur þessi sýning hingað í sumar en það er ekkert ákveðið,“ segir Reynir.

Þess má geta að Reynir hefur útbúð aðstöðu sína svo að hann hefur myndlist sína uppi og er öllum velkomið að koma við og skoða. Þó er mælt með því að hringja í síma 8612004 áður þar sem rýmið er einnig notað undir aðra starfsemi.

VF-mynd úr safni

[email protected]