Keyra stútana heim
Þeir Ómar Hjaltason og Kristinn Magnússon bjóða upp á nýstárlega þjónustu.
„Hugmyndin kviknaði eftir að félagi okkar var tekinn fyrir ölvunarakstur. Hann hafði fengið sér tvo drykki og ákvað að keyra heim. Það er einmitt þetta sem við viljum koma í veg fyrir með þessari þjónustu,“ segir Ómar Þröstur Hjaltason sem nýverið opnaði þjónustuna Keyrðu mig heim ásamt félaga sínum Kristni Sævari Magnússyni en þeir eru báðir 22 ára gamlir Keflvíkingar.
Þjónustan felst í því að að sækja fólk sem hefur ákveðið að fá sér í aðra tána og langar að koma bílnum sínum heim og sjálfum sér í leiðinni. Þeir Ómar og Kristinn ætla að sjá fólki fyrir þeirri þjónustu en þeir hafa ráðið til sín tvo bílstjóra til aðstoðar og þeim mun fjölga ef vel gegnur. Bílstjórar fyrirtækisins eru með öll tiltekin réttindi en undirbúningur að þjónustunni hefur staðið yfir í nokkra mánuði og segir Ómar töluvert umstang fylgja því að koma svona rekstri á koppinn.
Ómar segir að þessi þjónusta sé ekki til staða hérlendis en eftir að hugmyndin kom upp hafi þeir skoðað málið og komist að því að víða erlendis er slík þjónusta við lýði.
Strákarnir búa báðir í Reykjanesbæ og eru í fullri vinnu en þeir hugsa þjónustuna sem búbót eða aukavinnu. „Það er stefnan að þetta verði okkar aðalstarf en það kemur í ljós hvort vel gangi,“ segir Ómar en samkvæmt strákunum hefur tekið vel í þetta af fólki sem þekkir inn á markaðsmál og þeir eru því fullir bjartsýni. Þeir ákváðu að herja á markaðinn á höfuðborgasvæðinu en þeir taka ekki fyrir það að seinna meir verið boðið upp á þjónustuna hér á Suðurnesjum, en það fari bara eftir eftirspurn.