Klæðnaður og vopn bankaræningja

Lögreglan lokaði á skömmum tíma öllum undankomuleiðum frá Grindavík og skömmu síðar eða kl. 13:12 stöðvaði lögreglan fólksbifreið á Reykjanesi á veginum til Hafna og handtók þar 19 ára gamlan mann sem gat passað við lýsingu á brotamanninum. Hann var þó ekki klæddur þeim fatnaði sem ránsmaðurinn hafði verið í hann mun hafa klætt sig úr samfestingnum og ekkert þýfi fannst í bílnum. Góðar myndir fengust úr eftirlitsmyndavélum í Landsbankanum og hjálpuðu þær til við rannsókn málsins.
Hóf þá lögreglan umfangsmikla leit að þýfinu með aðstoð leitarhunda og björgunarsveitamanna sem kallaðir voru til aðstoðar. Sporhundur rakti slóð ræningjans frá bankanum að bifreiðaplani skammt frá þar sem ætla má að hann hafi farið upp í bifreið. Þýfið fannst síðan í svartri tösku í vegkantinum nærri Reykjanesvita, en brotamaðurinn mun hafa hent töskunni frá sér út úr bílnum þegar hann sá til aðgerða lögreglunnar. Við yfirheyrslur hjá lögreglu hefur sá handtekni gengist við ráninu og vísaði á stað þar sem hann hafði hent frá sér samfestingnum, lambhúshettunni,skónum og hnífnum sem var eldhúshnífur sem var með ca. 20 cm. löngu blaði.
Maðurinn var færður fyrir Héraðsdóm Reykjaness þar sem hann gekkst við brotinu og að beiðni lögreglu var hann úrskurðaður í gæsluvarðhald til 7. júní kl. 15:00.
Myndin: Fatnaður bankaræningjans ásamt vopni sem hann bar við ránið. VF-mynd: Hilmar Bragi Bárðarson