Fréttir

Komið til móts við óskir heimamanna
Miðvikudagur 16. maí 2007 kl. 13:01

Komið til móts við óskir heimamanna

Yfirlýsing frá Oddnýju Harðardóttur, bæjarstjóra í Garði, og Árna Sigfússyni, bæjarstjóra Reykjanesbæjar.

Við heimamenn hér á svæðinu getum verið mjög ánægðir með frummatsskýrslu  HRV um áhrif fyrihugaðs álvers við Helguvík, sem auglýst hefur verið og  birt á vefnum  www.hrv.is og reykjanesbaer.is. Frummatsskýrslan sýnir svo ekki verður um villst að komið hefur verið til móts við mikilvægustu skilyrði og kröfur okkar.

Í fyrsta lagi hefur tillaga sem lögð er fram um þynningarsvæði ekki áhrif á landnotkun né framtíðarstefnu sveitarfélaganna Garðs og Reykjanesbæjar. Okkur sýnist því að skipulag allt á iðnaðarsvæðinu geti orðið til fyrirmyndar.

Í öðru lagi verður flutningur á raforku til iðnaðarsvæðisins um jarðstrengi frá Fitjum að Helguvík.

Í þriðja lagi hefur verið komið til móts við óskir okkar um útlit og hönnun álversins, manir í kringum það og gróður, þannig að hvergi á Suðurnesjum verða sérstök sjónlýti af völdum versins.

Í fjórða lagi hafa Norðurál, Hitaveita Suðurnesja, Orkuveita Reykjavíkur og Háskóli Íslands hafið samstarf um vísindaverkefni um kolefnisbindingu sem er spennandi framlag til grundvallarrannsókna á þessu sviði á heimsvísu. Í frummatsskýrslunni kemur fram að álverið falli undir íslenska ákvæði Kyoto-bókunarinnar og samræmist stefnu íslenskra stjórnvalda um útstreymi gróðurhúsalofttegunda. Áhrif á aðra umhverfisþætti eru í flestum tilvikum óveruleg nema á afmörkuðum svæðum sem fara undir mannvirki.

Við hvetjum fólk á Suðurnesjum til að kynna sér skýrsluna. Skýrslan og tillögur að breytingum á gildandi aðalskipulagsáætlunum Reykjanesbæjar, Garðs og Keflavíkurflugvallar verða kynntar almenningi á opnum fundum í samráði við Skipulagsstofnun í byrjun júní. Ýmis atriði þarf að ræða frekar og velta vöngum yfir eins og t.d. mengunarvörnum, svo og þeim möguleika að förgun kerbrota geti orðið til þess að sporna gegn landbroti sem ógnar golfbrautum á Hólmsvelli í Leiru.

Við tökum heilshugar undir þá niðurstöðu frummatsskýrslunnar að heildaráhrif byggingar og reksturs álvers við Helguvík verði jákvæð fyrir byggðarlögin hér og landið í heild, enda er gert ráð fyrir að það verði byggt í áföngum og af innlendum aðilum eins og kostur er. Áhrif á atvinnu- og félagslíf munu verða mikil og góð og styðja við aðra atvinnuþróun á svæðinu.