Fréttir

Krefst óbreyttra varna
Föstudagur 13. júní 2003 kl. 20:44

Krefst óbreyttra varna

Davíð Oddsson, forsætisráðherra, er mjög ákveðinn og afgerandi í bréfi sínu til George Bush, Bandaríkjaforseta, og krefst þess að varnir landsins verði áfram óbreytta. Bandaríkjamenn vilja að ákvörðun um endurnýjun varnarsamningsins liggi fyrir í þessum eða næsta mánuði. Í bréfinu frá Bush til Davíðs er farið jákvæðum orðum um Ísland og rætt um að Bandaríkjamenn hafi áhuga á því að leita nýrra leiða um varnir landsins. Jafnframt þakkar forsetinn fyrir stuðning Íslands við innrásina í Írak. Samkvæmt því sem fram kemur í fréttum Rúv er tónninn í bréfi Davíðs til Bush allt annar og jafnvel harkalegur. Bréfið er sagt mjög ákveðið og afgerandi. Þess er krafist að varnir landsins verði áfram óbreyttar og eindregið lagst gegn því að F-15 orrustuvélarnar verði fluttar héðan.

Fram að þessu hafa viðræður um endurnýjun varnarsamningsins verið á forræði utanríkisráðherra en nú virðist forræðið vera komið yfir til forsætisráðherra. Viðmælendur fréttastofu telja að ef utanríkisráðuneytið hefði skrifað bréfið hefðu efnistökin verið allt önnur og jafnvel sé farið að gæta taugatitrings milli ráðuneytanna.

Eftir fund utanríkismálanefndar í gær er ekki ljóst hver framvinda málsins verður einfaldlega vegna þess að ekki er ljóst við hverja verður rætt í bandaríska stjórnkerfinu. Bréfið frá Davíð var afhent háttsettum embættismanni í þjóðaröryggisráði Bandaríkjanna sem hefur aðsetur í Hvíta húsinu. Fyrst að það fór þangað þykir líklegt að viðræður haldi áfram milli forsætisráðuneytisins og Hvíta hússins.

Bandaríkjamenn hafa sterklega gefið til kynna að þeir vilji hraða viðræðunum og að ákvörðun liggi fyrir í þessum eða næsta mánuði. Tíminn er því naumur en næstu skref ráðast af viðbrögðum Bandaríkjamanna við bréfinu frá forsætisáðherra. Rúv greindi frá.