Landhelgisgæzlan boðuð 50 mínútum eftir hvarf Húna KE

Það var klukkan 19:55 sem Húni KE datt út af skjá sjálfvirku tilkynningaskyldunnar og eftir að vaktmenn skyldunnar höfðu reynt að hringja í Húna KE án árangurs var haft samband við Sólborgu RE og togarann Vigra klukkan 20:10 og skipin beðin um að grennslast fyrir um bátinn. Skipin voru þá stödd um 5 sjómílur frá þeim stað sem Húni datt út úr sjálfvirku tilkynningaskyldunni. Klukkan 20:45 var hvarf Húna KE tilkynnt til Landhelgisgæslunnar, 50 mínútum eftir að samband rofnaði við bátinn.
Klukkan 21 björguðu skipverjar á Sólborgu Sævari Brynjólfssyni um borð í bátinn, en þá hafði Sævar setið á stefni Húna KE í um 75 til 90 mínútur.
Árni Sigurbjörnsson yfirvarðstjóri Tilkynningaskyldunnar vildi ekki tjá sig um málið í samtali við Víkurfréttir en lét hafa eftir sér að samskiptareglur Tilkynningaskyldunnar við björgunaraðila væru stöðugt til endurskoðunar.
VF-ljósmynd/Jóhannes Kr. Kristjánsson: Björgunarsveitarmaður frá Sigurvon í Sandgerði á stefni Húna KE í Sandgerðishöfn er báturinn hafði verið dreginn að landi.