Fréttir

Léttist um 30 kíló á 11 mánuðum
Fimmtudagur 17. október 2002 kl. 10:38

Léttist um 30 kíló á 11 mánuðum

- Samtök lystarstolssjúklinga og aðstandenda þeirra stofnuð í kvöld

Stofnfundur Spegilsins, samtaka sem hafa það að markmiði að aðstoða lystarstolssjúklinga og aðstandendur þeirra verður haldinn í Rauða Kross húsinu við Efstaleiti í kvöld, fimmtudaginn 17. október og hefst fundurinn klukkan 20.00. Forsvarsmenn samtakanna eru aðstandendur lystarstolssjúkra unglinga á Suðurnesjum. Í Víkurfréttum í dag er viðtal við Maríu Rán Ragnarsdóttur, en hún hefur barist við lystarstol frá því í október í fyrra.
Í Sandgerði býr 15 ára stúlka að nafni María Rán Ragnarsdóttir, en hún hefur þjáðst af lystarstoli (Anorexiu) síðustu mánuði. Í október í fyrra var María 72 kg, en á 11 mánuðum léttist María um 30 kíló og í dag er hún 42 kíló. Í ágúst á þessu ári áttaði María sig á því að hún væri veik þegar það leið yfir hana af næringarskorti. Hún hefur nú leitað sér hjálpar og ásamt foreldrum sínum og fleiri aðilum eru þær þessa dagana að stofna samtökin “Spegilinn" sem hefur það að markmiði að hjálpa ungum stúlkum sem þjást af þessum hrikalega sjúkdómi.

Skyr.is, hrökkbrauð og vatnsglas
Saga Maríu er ekkert einsdæmi, en á aðeins nokkrum mánuðum léttist hún um 30 kíló. Hún segir að sér hafi liðið vel yfir því hve mikla sjálfstjórn hún hefði: “Mér fannst það frábært hvað ég hafði mikla stjórn á sjálfri mér og gat neitað mér um að borða. Ég notaði allar leiðir til að forðast mat til að passa upp á það að ég myndi ekki fitna. Ég gat falið þetta fyrir fjölskyldu minni og var orðin lagin við það," segir María. Hún segir að brengluð sjálfsmynd sín hafi orðið til þess að hún áttaði sig ekki á því hvað hún væri í raun að gera: “Sjúkdómurinn felur það í sér að maður verður hrikalega hræddur við að fitna og maður notar allar leiðir til að forðast það að borða mat. Ef ég á að lýsa einum degi hjá mér þegar sjúkdómurinn var á sem hæstu stigi þá fékk ég mér á morgnana 1-2 skeiðar af skyr.is og borðaði síðan eitt hrökkbrauð yfir daginn og drakk hálft vatnsglas á kvöldin áður en ég fór að sofa. Og þegar ég fór að sofa var ég sigri hrósandi yfir því að hafa svona mikla stjórn á sjálfri mér," segir María og þegar maður lítur á þessa ungu og fallegu stúlku þá sér maður að hún er grennri en eðlilegt þykir.

Vigtaði sig 10 sinnum á dag
Lystarstolssjúklingar eru sífellt með hugann við vigtina: “Ég vigtaði mig 8-10 sinnum á dag og mér fannst það meiriháttar þegar ég sá að ég hafði misst 1-2 kíló á nokkrum dögum. Ég var sigri hrósandi. " María segist hafa hugsað mikið um mat á þessum tíma og hún hafi eldað mat og þóst borða hann: “Ég stóð í heilmikilli eldamennsku, en borðaði ekkert af því sem ég eldaði. Ég þóttist borða, en gat falið það vel að ég borðaði ekki neitt. Ég var alltaf jafn ánægð með að borða hrökkbrauðið." Foreldra Maríu fór að gruna að ekki væri allt með felldu fljótlega upp úr áramótum, en þá hafði María misst rúm 15 kíló: “Ég man að einn daginn hafði ég bara borðað minn venjulega skammt, eitt hrökkbrauð og þegar ég fór að sofa kom pabbi með hálft vatnsglas og bað mig um að drekka það. Ég vildi það engann veginn, en lét tilleiðast. Og ég var svo reið yfir því að þurfa að drekka vatnið að ég svaf ekkert þá nótt. Mér fannst ekkert vera að og leið vel yfir því hvað mikla sjálfsstjórn ég hefði."

Einangrun
Lystarstolssjúklingar einangrast félagslega og missa samband við vinina: “Ég vildi bara vera heima hjá mömmu og leið best þar. Maður einangrast félagslega og dregur sig til baka. Ég missti nær allt samband við vini mína sem síðar hafa sagt mér að þau hafi haldið að ég væri orðin svona merkileg með mig yfir því að hafa grennst svona
mikið." María segir að sér hafi mjög oft verið kalt: “Ég var oft blá af kulda og það er eitt af einkennum sem hægt er að sjá mjög fljótt hjá lystarstolssjúklingum," segir María.

Yfirlið vegna næringarskorts
Í maí á þessu ári fór María til sálfræðings og í meðferðinni kom fljótlega í ljós að hún væri lystarstolssjúklingur. Hún vildi samt ekki trúa því: “Ég hugsaði með mér að þetta gæti ekki komið fyrir mig. Heilinn í manni ruglast svo mikið og sjálfsmyndin brenglast svo að maður heldur að það sem maður sé að gera sé bara allt í lagi." Þann 9. ágúst leið yfir Maríu þegar hún var heima hjá sér og er yfirliðið rakið til næringarskorts. Í margar vikur hafði hún lítið sem ekkert borðað: “Ég varð mjög hrædd þegar það leið yfir mig og þá áttaði ég mig í raun á því að það væri eitthvað að. Ég hélt áfram hjá sálfræðingnum og upp frá þeim tíma hef ég verið að átta mig á sjúkdómnum og fræðast um hann," segir María og sýnir fermingarmyndirnar sínar, en á myndunum má sjá búlduleita og eðlilega
stúlku.

Stuðningur frá foreldrum
María hefur notið mikils stuðnings frá foreldrum sínum, þeim Kolbrúnu Marelsdóttur og Ragnari Kristjánssyni en þau taka virkan þátt í meðferðinni með henni. Kolbrún móðir hennar segir að þau hafi reynt að leita til einhverra samtaka eða aðila sem gæti hjálpað þeim að takast á við sjúkdóminn en allsstaðar komið að lokuðum dyrum: “Við komum allsstaðar að lokuðum dyrum, en sem betur fer komumst við í samband við sálfræðing sem kom okkur á rétta leið. En sem aðstandandi lystarstolssjúklings er hrikalegt að geta ekki leitað til neins varðandi hjálp."

Klukkutíma að borða samlokuna
María er í endurhæfingu í dag og á hverjum sunnudegi gera þær mataráætlun fyrir alla vikuna. María segir að hún taki það mjög alvarlega að ná bata: “Ég fer eftir áætluninni í einu og öllu. Ég borða á morgnana, klukkan 10 og í hádeginu. Borða síðan í kaffinu og í kvöldmatnum og áður en ég fer að sofa þá borða ég rjómaís," segir María og brosir. Kolbrún móðir hennar segir að það þurfi að fylgjast með því að hún borði, hún þurfi að finna stuðninginn: “Hún getur verið í hálftíma að borða eina jógúrtdós og þegar hún fær sér samloku brytjar hún hana niður í litla bita og er allt upp í klukkutíma að borða hana. En við erum ánægð með að sjá að hún tekur þessu alvarlega og við veitum henni stuðning," segir Kolbrún.

Hefur þyngst um tæpt kíló
María er í æfingum hjá Kiddý í Lífsstíl sem sér alfarið um að vigta hana: “Vigtin hefur verið fjarlægð af heimilinu og Kiddý sér um að vigta mig. Það að taka vigtina er hluti af endurhæfingunni. Ég hef þyngst um 800 gr. frá því ég áttaði mig á því að ég væri með þennan sjúkdóm. Ég fæ svo frábæran stuðning frá fjölskyldunni og vinum að ég
er bjartsýn á að komast yfir þetta, en ég tek lítil skref í einu," segir María að lokum.