Lindin vígð á átján ára afmæli Akurskóla
Lindin var formlega vígð þann 9. nóvember í Akurskóla, á átján ára vígsluafmæli skólans. Sigurbjörg Róbertsdóttir, skólastjóri Akurskóla, hélt tölu við tilefnið þar sem hún fór yfir tilurð Lindarinnar en Lindin hefur nú þegar notið velvildar úr nærsamfélaginu með ýmsum styrkjum.

Lindin er sértækt námsúrræði á vegum Reykjanesbæjar sem er starfrækt í Akurskóla og bætist við þrjú sértæk námsúrræði í Reykjanesbæ; Ösp, Eik og Björk. Fyrsti vísir að Lindinni varð til fyrir tveimur árum með úrræði fyrir tvo nemendur á einhverfurófi innan skólans, nemendurnir urðu svo fjórir haustið 2022 og núna haustið 2023 eru átta nemendur í Lindinni. Smátt og smátt hefur námsúrræðið stækkað og er núna komið í það húsnæði sem hæfir því innan skólans. Stefnt er að því að Lindin verði athvarf tíu nemenda haustið 2024.

Arnar Smárason, deildarstjóri Lindarinnar, segir nemendur Lindar koma úr fimm skólum Reykjanesbæjar og námsumhverfið sé einstaklingsmiðað og aðlagað að þörfum hvers og eins. Í deildinni er lögð áhersla á að nemendur nái færni í íslensku og stærðfræði og geti bjargað sér í daglegu lífi. Þá sækja nemendur Lindarinnar kennslustundir og frímínútur með sínum jafnöldrum eftir því sem við verður komið og njóta þá aðstoðar stuðningsfulltrúa. Nemendur fá einnig viðbótartíma í íþróttum og sundi. Aðalmarkmið úrræðisins er að hafa jákvæð áhrif á horfur barns og fjölskyldu og að efla lífsgæði barnsins.