Lögreglueftirlit í Grindavíkurhrauni
Um helgina hélt Lögreglan í Keflavík uppi sérstöku eftirliti í Grindavíkurhrauni og nágrenni vegna gruns um að rjúpnaveiðimenn væru þar á ferli. Fyrir stuttu gaf Umhverfisráðuneytið út reglugerð um bann við rjúpnaveiði á svæði í kringum höfuborgarsvæðið til 5 ára, en svæðið nær frá Hvalfjarðargöngum að Þingvallavatni og niður að Ölfusá. Veiðibannið gildir á öllu Reykjanesi. Hjálmar Hallgrímsson, aðstoðarvarðstjóri Lögreglunnar í Keflavík sagði í samtali við Víkurfréttir að við eftirlit um helgina hafi lögreglan ekki orðið vör við neina rjúpnaveiðimenn: „Lögreglunni hefur borist til eyrna að menn væru að skjóta rjúpur í Grindavíkurhrauni og á Fagradalsfjalli. En við eftirlit lögreglu um helgina kom ekkert slíkt í ljós. Lögreglan mun áfram vera með eftirlit á þessu svæði,“ sagði Hjálmar.