Með kókaín í hárkollunni

Konan er 64 ára, með tvöfalt ríkisfang, hollenskt og bandarískt en fædd í Hollandi. Hún kom hingað til lands á laugardaginn var frá Amsterdam. Grunsemdir vöknuðu hjá tollvörðum um að hún hefði óhreint mjöl í pokahorninu, hefðbundin fíkniefnaleit skilaði í fyrstu ekki árangri en eftir að tollverðirnir fóru að þreifa í hári konunnar styrktist grunur þeirra um að hún væri að reyna að smygla fíkniefnum hingað. Konan er heyrnarskert og samskiptin við tollverðina voru í fyrstu erfiðleikum háð en loks játaði hún að vera með hárkollu og að ráði varð að lögreglumenn á Keflavíkurflugvelli fóru með konuna til tæknideildar Lögreglunnar í Reykjavík. Í ljós kom að hárkollan hafði verið saumuð á konuna og um 800 grömmum af kókaíni komið mjög haganlega fyrir í henni.

Tollverðir í Leifsstöð hafa tekið mikið af kókaíni í sína vörslu undanfarna mánuði en ætla má að söluvirði efnanna sem konan var með sé á þriðja tug milljóna króna. Það fer þó eftir styrkleika kókaínsins og hversu mikið er hægt að drýgja það.
Fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík fer með rannsókn málsins og erlenda konan hefur verið úrskurðuð í gæsluvarðhald til fyrsta apríl. Talið er að hún sé svokallað burðardýr og grunur leikur á að hún hafi komið áður til landsins. Ætla má að konan hafi átt sér samverkamenn hér á landi sem fengið hafi hana til verksins.
Ásgeir Karlsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður fíkniefnadeildarinnar, segir að rannsóknin haldi áfram en fleiri hafi þó ekki verið handteknir.