Public deli
Public deli

Fréttir

Meirihluti umsókna afgreiddur hjá Þórkötlu
Miðvikudagur 8. maí 2024 kl. 11:35

Meirihluti umsókna afgreiddur hjá Þórkötlu

Búið að afgreiða 528 af 766 umsóknum sem bárust í mars 

Nú hafa 766 umsóknir borist Fasteignafélaginu Þórkötlu og er meirihluti þeirra þegar búinn að fá samþykki. Búið er að afgreiða allar umsóknir vegna kaupa á eignum Grindavík sem bárust í mars og ekki kölluðu á sérstaka skoðun, en alls eru það 528 umsóknir. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Þórkötlu.

Þar segir einnig: 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Enn er unnið í svokölluðum frávika umsóknum sem bárust í mars. Þær snúa meðal annars að breytingum á fermetra fjölda, frávikum frá lögheimili í eigninni, húsum í byggingu, altjónshúsum og dánarbúum. Félagið mun á næstu dögum hefja úrvinnslu þeirra 130 umsókna sem bárust á fyrri hluta aprílmánaðar.   

Þórkatla hefur þegar boðið eigendum um 415 húseigna í Grindavík kaupsamning til undirritunar eða rúmum 55% allra umsækjenda. Fyrir liggja 380 þinglýstir kaupsamningar að kaupverði um 30 milljarðar króna og hefur félagið greitt kaupsamningsgreiðslu í 358 viðskiptum að upphæð 17,5 milljarðar króna og yfirtekið lán frá 16 lánastofnunum að upphæð um 9 milljarðar króna. Þórkatla er nú að gera á bilinu 30 – 40 kaupsamninga á dag og stefnir að því að klára kaupsamning við alla þá 528 aðila sem sóttu um í mars í næstu viku.

Ýmis mál hafa flækt frágang nokkurra kaupssamninga svo sem þegar um er að ræða tryggingarbréf og veð frá einkaaðilum, kvaðir á húsum sem standa á lóðum í einkaeigu, útrunnin rafræn skilríki og ýmislegt annað. Nokkrir aðilar hafa kosið að undirrita ekki kaupsamning sem þeim barst frá Þórkötlu. Í slíkum tilvikum stendur fólki til boða að fá sendan nýjan samning þegar umsóknir sem bárust í apríl hafa verið afgreiddar.

 Félagið undirbýr nú viðtökur á fyrstu eignunum en það verður gert með sérstökum skilafundi með seljanda og úttektaraðila félagins. Nokkrir seljendur hafa óskað eftir seinkun á fyrirhuguðum afhendingardegi og hefur félagið tekið vel í slíkar beiðnir seljenda. Slíkt getur kallað á tilfærslu á afsalsdegi og í þeim tilfellum er þörf á skriflegum viðauka við kaupsamning. Haft verður samband við seljendur varðandi útfærslu á þessu. 

 „Heilt á litið er ég mjög ánægður með framgang mála hjá okkur núna. Það að hafa gert vel á fimmta hundrað kaupsamninga á síðustu vikum þýðir að sambærilegur fjöldi fjölskyldna í Grindavík hefur fengið úrlausn sinna mála. Það tók okkur nokkurn tíma að ná tökum á þessu flókna verkefni en þetta er allt á góðri leið, enda frábær hópur sem stendur á bak við þetta verkefni þvert á stjórnkerfið. Við höfum átt nokkuð erfitt með að sinna öllum beinum fyrirspurnum frá seljendum nógu vel að undanförnu en höfum nú fengið kröftugan liðstyrk inn í þau mál sem ég á von á að skili sér strax á næstu dögum í betra viðbragði við fyrirspurnum.“ segir Örn Viðar Skúlason framkvæmdastjóri Fasteignafélagsins Þórkötlu.