Fréttir

Meirihlutinn klofnaði í afgreiðslu skólahalds í Grindavík
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
fimmtudaginn 18. apríl 2024 kl. 11:30

Meirihlutinn klofnaði í afgreiðslu skólahalds í Grindavík

Meirihluti bæjarstjórnar Grindavíkur var ekki samhljóma þegar málefni skólastarfs í Grindavík var tekið fyrir á fundi bæjarstjórnar 17. apríl. Tillögur starfshóps um að safnskólar verði ekki reknir og að hefðbundið skólastarf grunn- og leikskóla verði ekki heldur í Grindavík næsta skólaár, voru samþykktar með fimm atkvæðum gegn tveimur.

Karlpeningurinn í bæjarstjórn, Hjálmar Hallgrímsson (D) og Gunnar Már Gunnarsson (M) lögðu fram breytingartillögu þar sem þeir lögðu til að skólahald, grunn- og leikskóli fari af stað hið fyrsta í Grindavík, svo lengi sem hægt verði að uppfylla aðalnámskrá, tryggja öryggi fólks ásamt því að húsnæði og lóðir verði öruggar og nothæfar til kennslu. Tillagan var felld með fimm atkvæðum allra kven bæjarfulltrúa í bæjarststjórn, þvert á pólitík. Meirihlutinn klofnaði því í þessu máli. Þær Ásrún Helga Kristinsdóttir, forseti bæjarstjórnar (B), Birgitta H. Ramsay Káradóttir (D), Helga Dís Jakobsdóttir (U), Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir (M) og Birgitta Rán Friðfinnsdóttir (M) greiddu atkvæði með tillögu starfshópsins. 

Þeir Hjálmar og Gunnar bókuðu og sömuleiðis konurnar í bæjarstjórn. Hér má sjá bókanir beggja aðila:

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Í sveitarfélögum sem eru með fáa íbúa er haldið úti skólastarfi fyrir börnin sem þar búa í mjög mörgum tilvikum. Bæjarstjórn þarf að setja sig í spor þeirra sveitarfélaga við ákvörðun um skólahald í Grindavík næsta skólaár. Ástandið í Grindavík er ólíkt ástandi þeirra sveitarfélaga en að lokinni jarðkönnun í Grindavík sem á að ljúka í sumar og viðgerðum á gatnakerfi bæjarins á það að vera mögulegt að tryggja öryggi okkar nemenda og allra íbúa bæjarins. Það er á ábyrgð foreldra og sveitarfélagsins að kynna vel fyrir börnum okkar hvar hættur eru í Grindavík og hvar ekki eins og foreldrar barna gera almennt á Íslandi sama hvar þau búa. Það er á ábyrgð sveitarfélagsins að loka þeim svæðum sem teljast vera óörugg og merkja þau svæði vel. Það er einnig á ábyrgð sveitarfélagsins að sinna skylduþjónustu fyrir íbúa okkar sem velja að hafa Grindavík áfram sem lögheimili sitt og óska eftir að hafa börnin sín í skóla eða leiksskóla í Grindavík. Sá valkostur að gera samning við annað sveitarfélag um þessa þjónustu hugnast ekki endilega þessum íbúum en það er mögulega hægt að gera samning um einhvern hluta aðalnámskrár s.s. með sund og íþróttir til eins árs eða þar til okkar húsnæði til að sinna þeirri þjónustu verður öruggt. 
Gunnar Már Gunnarsson og Hjálmar Hallgrímsson 

-------

Við þökkum skólaþjónustu Grindavíkurbæjar og fagaðilum sem hafa komið að þessari mikilvægu vinnu og horfum björtum augum á áframhaldandi vinnuframlag þeirra með farsæld barna, fjölskyldna þeirra og starfsfólks að leiðarljósi. 

Nú ríkir óvissuástand sem sér ekki fyrir endann á, við erum enn í miðjum atburði, og því ekki forsvaranlegt að draga málið lengur. 
Við teljum að með því samþykkja tillögurnar sem hér liggja fyrir séum við að eyða óvissu, stuðla að árangursríkri uppbyggingu og festu í lífi grindvískra fjölskyldna. 

Tillögurnar fela í sér faglegar og góðar lausnir í málefnum barna, starfsfólks og síðast en ekki síst reksturs sveitafélagsins. Við áréttum að Grindavíkurbær mun áfram sinna lögbundnum verkefnum, þar á meðal skólaskyldu þó ekki verði skólastarf í leik- og grunnskólanum í Grindavík næstkomandi skólaár, né starfræktir safnskólar sem voru eingöngu ásættanlegir sem tímabundin lausn. 
Ásrún Kristinsdóttir, Birgitta Hrund Káradóttir, Birgitta Rán Friðfinnsdóttir,   Hallfríður Hólmgrímsdóttir og Helga Dís Jakobsdóttir.