Mikið tjón í bruna á Ásbrú
Mikið tjón varð þegar eldur kom upp í íbúð í fjölbýlishúsi við Grænásbraut á Ásbrú í Reykjanesbæ í morgun. Útkall barst barst Brunavörnum Suðurnesja laust eftir klukkan níu í morgun og var fjölmennt björgunarlið sent á vettvang.
Reykkararar voru þegar sendir inn í íbúðina en ekki var ljós á þeirri stundu hvort einhver hafi verið inni í íbúðinni. Aðgerðir slökkviliðs á vettvangi brunans tóku um klukkustund en svo virðist sem eldur hafi komið upp í eldhúsi og hafi logað þó nokkra stund áður en slökkviliði var gert viðvart.
Rannsóknardeild lögreglunnar á Suðurnesjum hefur tekið við vettvangi og mun skera úr um eldsupptök.