Motoparksvæðið í biðstöðu
Framkvæmdir við Motoparksvæðið hafa legið niðri frá því að fyrirtækið Jarðvélar ehf var tekið til gjaldþrotaskipta í vetur. Talsverðar jarðvegsframkvæmdir höfðu farið fram á svæðinu og er nú töluverð óvissa um framhaldið. Í dag er VBS formlegur réttarhafi af byggingarréttinum.
Í ákvæðum samnings sem framkvæmdaaðilar gerðu við Reykjanesbæ var gert ráð fyrir að fyrirtækið hefði 5 ár til að klára fyrsta hluta verkefnisins. Tvö ár eru liðin af samningstímanum og verði ekki staðið við tímamörk rennur byggingarréttur aftur til Reykjanesbæjar og það fé sem verktakar og lánveitendur hafa sett til verksins það afskrifast.
„Við höfum undanfarið unnið að endurfjármögnun verkefnisins en eins og gefur að skilja er ástandið mjög erfitt hjá bönkunum og þessum geira almennt; segir Vilhjálmur Vilhjálmsson verkefnastjóri Iceland Motopark.
Mynd: Árni Sigfússon tók fyrstu skóflustunguna að Iceland Motopark haustið 2006.