Fréttir

„Myndi fara aftur yrði ég beðinn“
Miðvikudagur 12. janúar 2005 kl. 13:06

„Myndi fara aftur yrði ég beðinn“

-segir Hallbjörn Sævarsson flugvirki á Keflavíkurflugvelli sem fór með hjálparflugi Icelandair til Tælands 2. janúar.

„Það var mjög sérstakt andrúmsloft í flugvélinni en það var greinilegt að hjúkrunarfólkið og læknarnir kunnu svo sannarlega til verka. Vélin var eins og fljúgandi sjúkrahús," segir Hallbjörn Sævarsson flugvirki á Keflavíkurflugvelli en hann fór til Tælands ásamt læknum og hjúkrunarfólki þann 2. Janúar sl. Til að sækja sænska sjúklinga sem lent höfðu í flóðbylgjunni sem reið yfir Suður Asíu annan í jólum.
Hallbjörn segir að ferðin hafi gengið vel en flugið tók 15 klukkustundir frá Íslandi til Tælands. „Það var millilent í Tblisi í Georgíu og þaðan var haldið til Bangok," segir Hallbjörn en Bangkok höfuðborg Tælands er töluvert langt frá hamfarasvæðunum.

Að sögn Hallbjörns vann áhöfn vélarinnar og heilbrigðisstarfsfólkið þrekvirki og segir hann að mesta áherslan hafi verið lögð á að sjúklingarnir hvíldust. „Það var svo stórkostlegt að sjá hvernig sjúklingarnir voru meðhöndlaðir. Maður skynjaði hina andlegu þrekraun sjúklinganna," segir Hallbjörn en með flugvélinni var meðal annars flutt kona sem misst hafði bæði eiginmann sinn og börn. „Hún var þarna ein og hélt fast í bangsann sinn sem eitt barna hennar átti. Maður skynjaði sorg þessarar konu sterkt og þetta tók mikið á. Það hefur verið erfitt að loka sig frá þessu."

En Hallbjörn segir mikilvægt að hafa getað hjálpað. „Maður var auðvitað þreyttur og þá helst á andlega sviðinu. En ef ég væri beðinn um að fara aftur þá yrði ég lagður af stað eftir 5 mínútur."

Mynd 1  og 2
Áhöfn Flugleiða sem fór til Thailands 2. Janúar - komu heim 5. Janúar.

Mynd 4.
Hallbjörn ásamt Björgu og Hrafnhildi flugfreyjum. „Þær eru hetjurnar í ferðinni að öllum öðrum ólöstuðum. Þær bókstaflega sáu um alla í ferðinni," segir Hallbjörn.