Fréttir

Náttúruafl í Listasafni Reykjanesbæjar
Miðvikudagur 8. mars 2006 kl. 14:16

Náttúruafl í Listasafni Reykjanesbæjar

Sýningin Náttúrurafl verður opnuð á Listasafni Reykjanesbæjar föstudaginn 10. mars kl. 18:00. 
Náttúra Íslands hefur verið viðfangsefni margra listamanna í íslenskri myndlist á 20. öld.  Hún hefur verið uppspretta mismunandi tjáningarforms innan myndlistarinnar og hefur átt ríkan þátt í að skapa viss einkenni innan íslenskrar listasögu. 
Á sýningunni getur að líta marga ólíka tjáningarmiðla, málverk og skúlptúra, vefnað og grafíkmyndir eftir íslenskar konur; þær Ásgerði Búadóttur, Brynhildi Þorgeirsdóttur, Guðmundu Andrésdóttur, Hafdísi Ólafsdóttur, Hildi Hákonardóttur, Júlíönu Sveinsdóttur, Nínu Tryggvadóttur, Ragnheiði Jónsdóttur Ream, Sigrid Valtingojer, Valgerði Hauksdóttur og Þorbjörgu Höskuldsdóttur. 
Verkin á sýningunni eru öll unnin á seinni hluta 20. aldar og er ætlunin með þessari sýningu að miðla náttúruhrifum og kröftum íslenskrar náttúru.  Verkin eru í eigu Listasafns Íslands og sýningarstjóri er Harpa Þórsdóttir. 
Sýningin er í sýningarsal Listasafns Reykjanesbæjar í Duushúsum og er opin alla daga frá 13:00 til 17:30 og stendur til 23. apríl.

Af vef Reykjanesbæjar