Fréttir

Nýtt kirkjuorgel vígt í Grindavík í dag
Sunnudagur 30. september 2007 kl. 16:45

Nýtt kirkjuorgel vígt í Grindavík í dag

Í dag var vígt nýtt orgel í Grindavíkurkirkju við sérstaka hátíðarmessu af því tilefni. Orgelið er afar voldugt, enda með þeim stærri á landinu og það stærsta á Suðurnesjum. Gamla orgelið var 12 radda en það nýja er 25 radda með tveimur hljóðborðum og pedal. Alls eru pípurnar 1502, sú minnsta er 9 mm á lengd en sú stærsta um 2,5 metri. Smíðina annaðist Björgvin Tómasson, orgelsmiður, sem hefur unnið sleitulaust að henni síðan um haustið 2005.

„Þetta var algjört kikk, alveg meiriháttar upplifun að spila á svona skemmtilegt og fallegt hljóðfæri,“ sagði Friðrik Vignir Stefánsson, organisti Grindavíkurkirkju, og brosti sínu breiðasta þegar hann stóð upp frá orgelinu eftir messuna í dag.
„Þetta verður algjör bylting fyrir tónlistarlífið hér í kirkjunni. Nú er hægt t.d. að leika hér stærstu orgelverk tónbókmenntana,“ sagði Friðrik ennfremur.
Orgelið var fjármagnað með fjárframlögum einstaklinga, fyrirtækja og annarra velunnara Grindavíkurkirkju.

Við messuna í dag predikaði Sr. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup og sr. Elínborg Gísladóttir sóknarprestur þjónaði fyrir altari. Þá lásu sr. Jóna Kristín Þorvaldsdóttir og sr. Örn Bárður Jónsson ritningarlestra.
Kór Grindavíkurkirkju söng undir stjórn Friðriks Vignis Stefánssonar, organista.
Eftir messuna bauð svo Kvenfélag Grindavíkur upp á kaffiveitingar í safnaðarheimilinu.

Mynd: Frá hátíðarmessunni í dag. Nýja orgelið er hið voldugsta, eins og sjá má á þessari mynd, og hljómur þess eftir því. VF-mynd: elg