Of fáir nemendur í Fisktækniskóla Suðurnesja
Katrín Jakobsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur svarað fyrirspurn frá Sigurði Inga Jóhannssyni um Fisktækniskóla Suðurnesja í Grindavík. Í fyrirspurn Sigurðar er óskað eftir svörum um hvenær skólinn muni fá varanlega fjármögnun. Í svari menntamálaráðherra kemur fram að samningur sé á milli Fisktækniskóla Íslands ehf. og mennta- og menningarmálaráðuneytis sem gildi til loka júní 2013. Samtals gerir samningurinn ráð fyrir 56 millj. kr. fjárveitingu úr ríkissjóði til skólans á samningstímanum.
Samningurinn kveður á um tilraunakennslu allt að 30 nemenda sem skuli ljúka námi vorið 2013. Þar kemur einnig fram að litið skuli til forinnritunar nýnema vorið 2012 til að leggja mat á þörf fyrir nám í fisktækni og þar með framhald verkefnisins.
Fram kemur í svari ráðherra að á haustönn 2012 hafi nemendur við skólann aðeins verið sex talsins samkvæmt upplýsingum frá skólanum. Nemendafjöldi er því verið nokkuð undir þeim fjölda sem samningurinn gerir ráð fyrir. Í ráðuneytinu er nú unnið að því að leggja mat á hvernig fyrirkomulagi náms í fisktækni verður best fyrir komið.
Ennfremur segir ráðherra að með jafn fáa nemendur og raun ber vitni sé óbreytt fyrirkomulag fjárhagslega óhagkvæmt. Samningurinn gerði ráð fyrir allt að 30 nemendum sem hefði þýtt um 900 þús. kr. á hvern nemenda. Vegna lítils fjölda nemenda hefur meðalárskostnaður á hvern nemanda við Fisktækniskóla Íslands verið rúmar 4 millj. kr. á samningstímanum. Til samanburðar er meðalárskostnaður á hvern nemenda í framhaldsskólum um 800 þús. kr.
Ráðuneytið leitar nú leiða til að tryggja áframhaldandi námsframboð í fisktækni og tengdum greinum á Suðurnesjum í samvinnu við fleiri aðila sem tryggir að kostnaður á hvern nemanda verði ekki umfram það sem samningur gerir ráð fyrir.