Óperuperlur í safnaðarheimili Keflavíkurkirkju

Jóhann Smári Sævarsson söngvari sem er einn af stofnendum Norðuróps segir að tónleikarnir séu óperugala og dagskráin mjög fjölbreytt. Atriði og aríur úr eftirfarandi óperum verða flutt: Töfraflautan, don Giovanni, Cosi fan tutte, Russalka, Fidelio, Lakme, Lohengrin, Seldu brúðinni, Rakaranum frá Seville, Samson og Dalila og loks úr óperunni Don Carlo. Óperuunnendur ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi.
Jóhann Smári er á leið til Þýskalands þar sem hann hefur ráðið sig til óperunnar í Regensburg. En hann og kona hans, Elín Halldórsdóttir, munu nota sumrin hér og starfa áfram með óperufélaginu Norðuróp. Sigurður Sævarsson, bróðir Jóhanns Smára, er að semja nýja óperu ásamt rithöfundinum Hallgrími H. Helgasyni. Þegar er hafin undirbúningasvinna að stórri óperuhátíð sumarið 2003, þar sem fluttar verða tvær óperur og munu erlendir aðilar koma að því verkefni. Óperuunnendur og þeir sem njóta þess að hlýða á góðan söng ættu ekki að láta þessa skemmtun framhjá sér fara og styrkja þannig nýsköpun í listum og menningu á Suðurnesjum.