Fréttir

Rekstrarafkoma jákvæð í Garðinum
Fimmtudagur 10. apríl 2014 kl. 07:48

Rekstrarafkoma jákvæð í Garðinum

Skuldaviðmið sveitafélagsins aðeins 3,4%

Samkvæmt nýjum ársreikningi Sveitafélagsins Garðs var rekstur ársins 2013 í góðu samræmi við fjárhagsáætlun og er rekstrarafkoma mun betri en árið á undan. Sveitarfélagið býr við þá stöðu að skuldaviðmið er aðeins 3,4%, en samkvæmt fjármálareglum sveitarstjórnarlaga má þetta viðmið ekki fara umfram 150% af tekjum. Sveitarfélagið uppfyllir hins vegar ekki svonefnda „jafnvægisreglu“ sveitarstjórnarlaga, um hallalausa rekstrarniðurstöðu á þriggja ára tímabili.

Samkvæmt ársreikningnum sem var til fyrri umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær, þann 9. apríl 2014, námu rekstrartekjur í samandregnum rekstrarreikningi A og B hluta alls kr. 946 milljónum.  Í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð kr. 922 milljónum. Rekstrartekjur A-hluta námu kr. 916 milljónum, en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir rekstrartekjum kr. 893 milljónum.

Rekstrarafkoma bæjarsjóðs í A-hluta, fyrir afskriftir og fjármagnsliði (Framlegð / EBITDA) er jákvæð að fjárhæð kr.  40 milljónir, í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að afkoman væri jákvæð kr. 39,6 milljónir.  Rekstrarafkoman í ársreikningi ársins 2012 var jákvæð kr. 6,2 milljónir. Rekstrarafkoma í samanteknum rekstrarreikningi A- og B- hluta, fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð kr. 73 milljónir ,en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir jákvæðri afkomu kr.  71 milljón. Rekstrarafkoman í ársreikningi ársins 2012 var jákvæð kr. 37,2 milljónir.

Rekstrarniðurstaða ársins, eftir afskriftir og fjármagnsliði í samanteknum rekstrarreikningi A- og B-hluta er rekstrarhalli kr.  9,8 milljónir, en í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir halla kr.  6,7 milljónir. Rekstrarniðurstaða ársins 2012 var neikvæð kr. 50,1 milljón.  Rekstrarniðurstaða A-hluta er halli að fjárhæð kr.  6,8 milljónir,  í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir halla að fjárhæð kr. 1,7 milljónum.  Rekstrarniðurstaða A-hluta árið 2012 var neikvæð kr. 45,5 milljónir.

Í yfirliti um sjóðstreymi kemur fram að veltufé frá rekstri í samanteknum reikningsskilum A- og B hluta var kr.  99 milljónir og handbært fé frá rekstri var kr.  70,5 milljónir.  Í fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri væri kr. 98,4 milljónir og handbært fé frá rekstri kr. 94,9 milljónir.

Heildar eignir bæjarsjóðs í A-hluta námu kr.  2.852 milljónum og heildareignir í samanteknum reikningi A- og B-hluta kr.  3.170 milljónum.  Heildarskuldir og skuldbindingar bæjarsjóðs í A-hluta voru kr.  403 milljónir og í samanteknum reikningi A- og B-hluta kr.  676 milljónir.

Eiginfjárhlutfall í samandregnum reikningi A- og B-hluta var 78,66% í árslok 2013, eða það sama og var í árslok 2012.  Eiginfjárhlutfall bæjarsjóðs í A-Hluta var í árslok 2013 85,86%,  en var 85,75% í árlok 2012.