Fimmtudagur 21. ágúst 2003 kl. 10:15
Rockville lagt í rúst!

Skemmdarverk hafa verið unnin á gömlu ratsjárstöðinni Rockville á Miðnesheiði, þar sem Byrgið var síðast til húsa. Rúður eru víða brotnar og flest allar byggingar standa galopnar eftir að hafa verið brotnar upp. Ungmenni virðast venja komur sínar á svæðið og þegar blaðamaður Víkurfrétta kom að Rockville síðdegis í gær mætti hann tveimur ungum drengjum á reiðhjólum að yfirgefa staðinn. Talað mál og þrusk mátti heyra í húsum á svæðinu og nokkuð ljóst að ungmenni voru í felum í byggingum.Samkvæmt upplýsingum frá Lögreglunni í Keflavík er það lögreglunnar á Keflavíkurflugvelli að hafa eftirlit með svæðinu í Rockville. Guðmundur Jónsson í Byrginu, sem stóð fyrir mikilli uppbyggingu á svæðinu, lýsti áhyggjum sínum af ástandinu í samtali við Víkurfréttir. Þarna væri búið að eyðileggja allt það sem hafi verið lagað á síðustu árum og Rockville væri í raun komið í sama farið og þegar Byrgið tók við svæðinu á sínum tíma.
Meðfylgjandi mynd er úr varðskýli við hliðið inn á svæðið. Þar eru allar rúður brotnar og stórt gat hefur einnig verið gert í girðinguna við hliðið þannig að auðvelt er að komast inn á svæðið. VF-mynd: Hilmar Bragi