Til leigu (Skólamatur)
Til leigu (Skólamatur)

Fréttir

  • Safna undirskriftum vegna Eldvarpa
    Eldvörp eru um 10 kílómetra löng gígaröð norðvestur af Grindavík. Þar eru stórir gígar og verulegur jarðhiti og gufuuppstreymi mikið. Þegar rammaáætlun var samþykkt af Alþingi árið 2013 voru Eldvörp sett í orkunýtingarflokk.
  • Safna undirskriftum vegna Eldvarpa
    Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkur
Fimmtudagur 7. janúar 2016 kl. 15:00

Safna undirskriftum vegna Eldvarpa

- Bæjarstjóri Grindavíkur segir ólíklegt að þær hafi áhrif

 
HS Orka mun hefja tilraunaboranir við Eldvörp, gígaröð í landi Grindavíkur, á næsta ári gangi áætlanir eftir. Stofnað hefur verið til undirskriftasöfnunar gegn framkvæmdunum á vefnum avaaz.org. Stefnt er að því að safna 10.000 undirskriftum en þegar hafa rúmlega 2100 skrifað undir. Á Vísi kemur fram að Jóhann Garðar Þorbjörnsson, leiðsögumaður og líffræðingur, standi að undirskriftasöfnuninni. Hann segir í viðtali við Vísi að barátta Ellerts Grétarssonar ljósmyndara hafi hreyft við sér en Ellert bjó til myndband í desember síðastliðnum til að vekja athylgi á tilraunaborunum HS Orku. Markmiðið með undirskriftunum er að sýna HS Orku og Grindavíkurbæ þann vilja fólks að svæðið verði óraskað fyrir núverandi og komandi kynslóðir til að njóta.
 
Á vef HS Orku kemur fram að tilgangur framkvæmdanna sé að auka við þekkingu á umfangi, eðli og innri gerð jarðhitasvæðisins og meta tengsl við næstliggjandi jarðhitakerfi í Svartsengi. Þá er tilgangurinn einnig að skera úr um hæfni svæðisins til virkjunar. Rannsóknarholurnar í Eldvörpum verða þeirrar gerðar að þær geti síðar nýst sem vinnsluholur ef til virkjunar kemur. Í deiliskipulagi Grindavíkurbæjar er gert ráð fyrir fimm borplönum við Eldvörp.
 
 
Talsvert neikvæð áhrif að mati Skipulagsstofnunar
Samkvæmt áliti Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum vegna rannsóknaborana frá 22. september 2014 eru helstu neikvæðu áhrif framkvæmdanna sjónræns eðlis og vegna hávaða á framkvæmdatíma sem komi aftur til með að hafa neikvæð áhrif á upplifun ferðamanna sem sækja svæðið heim. Þá telur Skipulagsstofnun jarðfræðilega sérstöðu Eldvarpasvæðisins óumdeilanlega en svæðið er á náttúruminjaskrá vegna stórbrotinnar jarðfræði. Í álitinu segir að ljóst sé að áhrif af gerð borplana og borun rannsóknarhola verði neikvæðari því nær sem farið er að gígaröðinni og að eðli málsins samkvæmt verði umhverfisáhrif meiri eftir því sem fleiri holur verða boraðar og fleiri borplön útbúin. Skipulagsstofnun telur að hvort sem ráðist verði í borun þriggja borhola á þremur borplönum eða fimm hola á fimm plönum verði sjónræn áhrif og áhrif á landslag staðbundið talsvert neikvæð vegna umfangs plananna og staðsetningar þeirra í og við þá landslagsheild sem Eldvarparöðin er. 
 
Segir ólíklegt að undirskriftir hafi áhrif
Grindavíkurbær hefur þegar gefið út framkvæmdaleyfi til HS Orku. Róbert Ragnarsson, bæjarstjóri Grindavíkurbæjar, á ekki von á því að undirskriftasöfnunin breyti neinu um framkvæmdirnar. „Að söfnuninni standa ónafngreindir aðilar sem vísa ekki á nein gögn, nema fallegt myndaband af svæðinu. Að mínu mati er fólk að taka alveg óupplýsta ákvörðun með undirskrift sinni.“ Hann bendir á að búið sé að gera breytingar á aðalskipulagi og deiliskipulagi Grindavíkurbæjar og að þær breytingar hafi verið auglýstar á sínum tíma. „Fólk hefur haft mörg tækifæri til að koma athugasemdum sínum á framfæri. Þessu ferli hefur verið sinnt í samræmi við lög.“
 
Boruð var ein hola við Eldvörp árið 1983 og segir Róbert síðan hafa staðið til að bora fleiri. „Upphaflega hugmyndin var að bora í gígaröðina sjálfa en í auðlindastefnu Grindavíkurbæjar eru settar fram takmarkanir á framkvæmdum við hana. Í undirbúningsferlinu höfum við reynt að koma til móts við sjónarmið þeirra sem eru á móti tilraunaborununum. Í huga sumra er allt rask við gígaröðina rask á náttúrunni og ég ber virðingu fyrir því sjónarmiði en er ekki sammála. Það er bæði hægt að nýta og njóta.“ Róbert bendir á að Grindavíkurbær hafi sett hverfisvernd á gígaröðina sem er friðun með ákveðnum skilmálum þannig að gígunum verði ekki raskað, heldur verði borað austan við gígaröðina. „Í skilmálum fyrir framkvæmdaleyfi og breytingar á deiliskipulagi eru einnig ýmsir skilmálar, svo sem að geyma eigi hraun og annað sem er verið að raska og ganga frá því aftur eins og það var,“ segir hann. Í skilmálum eru einnig ákvæði um að halda mannvirkjum í lágmarki, hafa umfang vegslóða í lágmarki og forðast rask á hraunum. 
 
 
Óttast ekki áhrif á ferðaþjónustu
Til Grindavíkur kemur um ein milljón ferðamanna ár hvert. Í lok síðasta árs setti UNESCO, menningarmálastofnun Sameinuðu þjóðanna, Reykjanesið í heild sinni á lista yfir 120 áhugaverðustu jarðvanga í heiminum. Aðspurður um það hvort framkvæmdir eins og tilraunaboranir HS Orku við Eldvörp muni hafa neikvæð áhrif á ferðaþjónustuna kveðst Róbert ekki óttast það. „Við í Grindavík erum mjög meðvituð um þau áhrif sem virkjanir hafa. Til að mynda höfum við tekið þá ákvörðun að í Grindavík rísi ekki stóriðja. Við ætlum áfram að vera framúrskarandi á sviði matvælaframleiðslu og ferðamennsku. Við tökum ekki neinar ákvarðanir sem munu skemma fyrir uppbyggingu ferðaþjónustunnar, hún er ein af okkar undirstöðum.“