Sannkölluð Happadís

Sverrir Þór Jónsson, skipstjóri og útgerðarmaður á Happadís, ásamt áhöfn sinni, hlutu þann heiður þar sem þeir komu á land með meiri afla eftir einn túr en nokkur hefur áður gert í smábátakerfinu.
Þeir lönduðu 17,2 tonnum á Neskaupstað þann 31. nóvember sl. sem er sannarlega vel af sér vikið, en daginn áður komu þeir að landi með á 11. tonn. Víkurfréttir tóku Sverri tali þegar hann og áhöfnin voru að þrífa bátinn við smábátahöfnina í Grófinni í Keflavík.
Sverrir var áður með lítinn netabát, en segir reksturinn í stóra kerfinu hafa verið orðinn afar erfiðan, því hafi hann afráðið að skipta um stefnu. Happadísin landar jafnan í Sandgerði en aflinn er fluttur í fiskvinnslurnar H. Pétursson í Garði og Eskju á Eskifirði, sem leigja honum kvóta fyrir aflanum.

Happadísin, sem ber vissulega nafn með rentu, er af gerðinni Spútnik og fékk Sverrir bátinn afhentan 10. ágúst. Hann sagðist afar ánægður með Happadísina sem hefur reynst mikið aflaskip, auk þess sem hún ber sig vel í miklum sjógangi.
„Við vorum með tæp 450 tonn í heildarafla fram að áramótum sem er mjög gott miðað við að það var lítið róið í desember. Annars hefur okkur gengið mjög vel þrátt fyrir að ég hafi verið nýr á línunni og með nýja áhöfn, en ég hef verið mjög heppinn með mannskap og við vinnum vel saman.“ Sverrir sagðist að lokum vera bjartsýnn á framhaldið, en sá þó ekki fram á mikla sjósókn næstu daga sökum brælu.