Miðvikudagur 8. janúar 2003 kl. 18:09
Sitja þar til svör fást

Á föstudag verður staðið fyrir mótmælum með setuverkfalli á biðstofu Heilsugæslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja vegna viðvarandi læknaleysis. Helga Valdimarsdóttir sem er einn af skipuleggjendum mótmælanna sagði í samtali við Víkurfréttir að nóg væri komið: “Við höfum engin svör fengið og það eina sem við höfum heyrt frá framkvæmdastjóranum er að hún vilji ekki tjá sig um málið. Við viljum fá læknana aftur og tíminn er útrunninn sem deiluaðilar hafa haft til að laga ástandið. Ég vil hvetja alla sem vilja hafa hér heilsugæslu að mæta klukkan þrjú á biðstofuna og sýna stuðning í verki. Við munum í þetta sinn sitja þangað til við fáum svör og úr rætist," sagði Helga í samtali við Víkurfréttir.